Innlent

Segir hafa verið valið úr tölvupóstum til birtingar

Jónína Benediktsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi í dag líkt og ritstjóri og fréttaritstjóri Fréttablaðsins.
Jónína Benediktsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi í dag líkt og ritstjóri og fréttaritstjóri Fréttablaðsins.

Jónína Benediktsdóttir sagði við skýrslutöku í aðalmeðferð máls hennar gegn Fréttablaðinu að blaðið hefði haldið hlífiskildi yfir eigendum sínum með því að birta ekki tölvupósta þar sem fjallað væri um Thee Viking. Hvorki ritstjóri né fréttaritstjóri Fréttablaðsins sögðust muna eftir slíkum tölvupóstum.

Jónína Benediktsdóttir sagði við skýrslutöku í aðalmeðferð máls hennar gegn Fréttablaðinu að blaðið hefði haldið hlífiskildi yfir eigendum sínum með því að birta ekki tölvupósta sem kæmu þeim illa. Hún sagði þetta vera tölvupóst frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni til Jóns Geralds Sullenberger þar sem fjallað væri um snekkjuna Thee Viking. Hvorki Kári Jónasson ritstjóri Fréttablaðsins né Sigurjón M. Egilsson fréttaritstjóri sögðust reka minni til að hafa séð umræddan póst.

Jónína fékk í gær að skoða tölvupóstana sem sýslumaður gerði upptæka hjá Fréttablaðinu 30. september síðast liðinn. Hún sagði fréttaflutning Fréttablaðsins og birtingar úr tölvupóstinum hafa valdið sér gríðarlegum skaða og verið í óþökk sinni. Hún sagði að í hvert sinn sem hún reyndi að rísa á fætur fengi hún nýtt spark og virtist við það að bresta í grát. Hún sagði fréttir um tölvupóstana hafa verið villandi og teknar úr samhengi en neitaði að svara þegar lögmaður Fréttablaðsins bað hana um að útlista með hvaða hætti fréttirnar væru villandi eða aðeins sagður hálfsannleikur.

Kári Jónasson ritstjóri Fréttablaðsins sagði að gögnin hefðu borið með sér að vera mikið innlegg í umræðuna um Baugsmálin og staðfest ýmislegt sem hefði verið rætt um hverjir komu Baugsmálinu af stað. Eftir að staðfest hafði verið að um raunverulega tölvupósta væri að ræða en ekki falsanir hefði verið ákveðið að vinna fréttir um það sem hefði skýrt fréttagildi en aldrei hefði komið til greina að fjalla um viðkvæm persónuleg mál.

Sigurjón M. Egilsson, fréttaritstjóri Fréttablaðsins, staðfesti að afrit af tölvupóstinum hefðu borist sér en neitaði að segja hvernig það hefði gerst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×