Erlent

Minnst spilling sögð á Íslandi

 Á árlega uppfærðum lista stofnunarinnar Transparency International, sem sérhæfir sig í að meta og fylgjast með spillingu í löndum heims, er Ísland talið minnst spillta land veraldar. Mest er spillingin aftur á móti í Tsjad, Bangladess, Túrkmenistan og Myanmar (Búrma). Þetta kemur fram í nýjustu skýrslu stofnunarinnar sem birt var í gær. Þar segir að í yfir tveimur af hverjum þremur af þeim 159 löndum sem skýrslan nær til sé spilling á alvarlegu stigi. Þetta hamli viðleitni til að uppræta fátækt í heiminum. Á einkunnaskala Transparency International, sem mælir mat á spillingu í viðkomandi landi (Corruption Perception Index, CPI), fær Ísland einkunnina 9,7 en Tsjad og Bangladess 1,7. Einkunnagjöfin er byggð á umsögnum fólks sem er sérfrótt um viðkomandi lönd, háskólafólk og embættismenn, og fólk sem stundar viðskipti í þessum löndum. Peter Eigen, stjórnarformaður stofnunarinnar sem hefur höfuðstöðvar sínar í Berlín, segir spillingu í stjórnsýslunni auka á fátækt og eymd í mörgum þróunarlöndum. "Þessar tvær plágur nærast hvor á annarri og læsa íbúana í vítahring eymdar," tjáði Eigen AP-fréttastofunni. "Það verður að ganga hart fram gegn spillingu ef þróunaraðstoð á að skila áþreifanlegum árangri í að hjálpa fólki upp úr fátækt." Þau ríki sem lenda neðst á listanum eru flest einnig meðal þeirra fátækustu. Þau eru flest í Afríku. Ríkin sem álitin eru minnst spillt eru jafnframt þau þróuðustu og ríkustu. Næst á eftir Íslandi koma Finnland (9,6), Nýja Sjáland (9,6), Danmörk (9,5), Singapore (9,4), Svíþjóð (9,2), Sviss (9,1), Noregur (8,9), Ástralía (8,8) og Austurríki (8,7). Nokkur lönd færðust upp um nokkur sæti frá því í fyrra. Þar á meðal eru Eistland, Frakkland, Hong Kong og Japan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×