Erlent

Hlutu Nóbelsverðlaun í eðlisfræði

Tveir Bandaríkjamenn og Þjóðverji hlutu Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði í dag. Verðlaunin fengu þeir fyrir rannsóknir sínar í ljósfræðum, sem leitt hafa til mikilla umbóta á nákvæmum tímamælingum, staðsetningarkerfum og leisertækni - og í framtíðinni má búast við að þrívíddarsjónvörp verði byggð á tækni sem rannsóknir þeirra byggja á. Roy Glauber, John Hall og Theodor Hänsch deildu með sér verðlaununum, um 78 milljónum íslenskra króna. Það er ef til vill ekki auðvelt fyrir venjulega leikmenn að átta sig á rannsóknum þremenninganna sem lúta að ljósfræðum, hegðun mismunandi ljóstegunda og nákvæmum mælingum á tíðnisviði þess. Hänsch segir að rannsóknirnar snúast um gríðarlega nákvæmar mælingar á ljósi og efni, svo nákvæmar að það sé ekki hægt að ímynda sér það. Hann segir að hægt sé að tilgreina lit og tíðni ljóss með 14-16 aukastöfum. Almenningur nýtur hins vegar góðs af niðurstöðunum því þær eiga til dæmis þátt í miklum umbótum sem hafa orðið á staðsetningarkerfum eins og GPS- og leysitækni og þær munu einnig geta bætt siglingatækni í geimnum sem og fjarskipti á jörðu niðri. Hänsch sjálfur segir þrívíddarsjónvarp einnig vera möguleika leiddan af ljósrannsóknum þremenninganna, en hann þurfi að þróa frekar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×