Erlent

Enginn veit hvað er að gerast

Algjör ringulreið er í Úsbekistan eftir að hersveitir skutu á mótmælendur og meintir íslamskir öfgamenn slepptu hundruðum fanga úr fangelsi. Fjölmiðlar í landinu senda út skemmtidagskrá og enginn virðist vita með vissu hvað er að gerast. Atburðarásin hófst í morgun þegar að hópur uppreisnarmanna réðst inn í fangelsi í bænum Andijan og hjálpaði félögum sínum þar að brjótast út. Þar voru á ferð meintir íslamskir öfgamenn sem hertóku í kjölfarið lögreglustöðina í bænum. Nokkrir lögreglumenn voru í gíslingu þeirra og fregnir hafa borist af átökum. Byssugelt hefur heyrst, byggingar brunnið og vegatálmar voru settir upp á götum sem liggja að miðborginni. Skömmu síðar þustu nokkur þúsund manns út á götur Andijan til að sýna stuðning sinn við uppreisnarmennina. Hersveitir mættu á svæðið og skutu á mannfjöldann sem flýði í ofboði. Fréttaritarar sáu lík á vettvangi. Sumir mótmælendanna kröfðust afsagnar forseta landsins, Islams Karimovs, sem hefur sætt harðri gagnrýni fyrir einræðistilburði og að virða mannréttindi að vettugi. Rót ólgunnar virðist í það minnsta að hluta mega rekja til þess að hann hefur skipað fyrir um handtökur þeirra sem ekki fylgja ríkisútgáfunni af íslamskri trú. Nokkur fjöldi kaupsýslumanna hefur til að mynda verið handtekinn fyrir að fjármagna verk meintra íslamskra hryðjuverkamanna. Rússneskar fréttastofur greindu frá því síðdegis að áhlaup hersins á bæinn væri yfirvofandi. Ólgan er bundið við austurhluta landsins, við Andijan, en fregnir af atburðunum hafa verið litlar og engar innanlands. Erlendar fréttastöðvar voru teknar úr loftinu og innlent skemmtiefni sett í staðinn og allar upplýsingar sem sendar eru út koma frá stjórnvöldum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×