Erlent

Sagði að hengja ætti ráðamenn

Fyrstu skilaboð skákmeistarans til heimsbyggðarinnar, eftir að hann var látinn laus úr prísundinni í Japan, var að hengja ætti Bandaríkjaforseta og forsætisráðherra Japans. Skákmeistarinn var látinn laus um klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma eftir að hafa undirritað yfirlýsingu þess efnis að hann félli frá málsókn á hendur japönskum yfirvöldum. Þar með lauk níu mánaða varðhaldsvist skákmeistarans. Fjöldi blaða- og fréttamanna sat fyrir Audi-bifreið íslenska sendaráðsins í Japan sem flutti Fischer á flugvöllinn. Þegar þangað var komið gaf hann sér þó tíma til að ræða við þá stuttlega. Fischer sagði að hann yrði ekki frjáls fyrr en hann kæmist frá Japan, en í landinu væri ekki farið að lögum og reglu. Fischer sagðist ekki hafa verið handtekinn heldur rænt og að það hefðu verið samantekin ráð George Bush Bandaríkjaforseta og Koizumis, forsætisráðherra Japans, sem væru stríðsglæpamenn sem ætti að hengja. Heyra mátti fagnaðarlæti annarra farþega þegar Fischer gekk í gegnum tollhliðið með nýja íslenska vegabréfið og einn heyrðist hrópa: „Bravó, Bobby.“ Áfram var hann eltur af fréttamönnum sem meðal annars spurðu hvort hann vildi færa forsætisráðherra Japans skilaboð svona í lokin. Hann sló þá á ögn léttari strengi og sagði: „Ég vil þig, ég þarfnast þín, ég elska þig,“ og vitnaði þar til dægurlags með Elvis Presley. Hann sagðist ekkert hafa á móti Japan en að ráðamenn þar væru glæpamenn. Forsætisráðherrann væri bófi sem tæki við skipunum frá Bush forseta. Lögmaður Fischers, Masako Suzuki, sem ætti nú að sjá fyrir endann á störfum sínum fyrir skákmeistarann, kvaddi. Hún sagði að stjórnvöld í Japan hefðu tekið rangt á málinu og sem Japani skammaðist hún sín fyrir þau, sérstaklega eftir að hafa séð framgöngu Íslendinga. Framkoma bandarískra og japanskra yfirvalda hefði verið hörmuleg. Og þar með kvaddi Fischer Japana og hélt með SAS-vél til Kaupmannahafnar áleiðis til nýju heimkynnanna, Íslands.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×