Innlent

Fischer verður Íslendingur

Allsherjarnefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í gær að mæla með því við Alþingi að veita Bobby Fischer íslenskan ríkisborgararétt. "Við höfum áður haft málið til umfjöllunar en á því stigi taldi ég ekki fullreynt á það að Bobby Fischer gæti losnað frá Japan á grundvelli dvalarleyfis og ferðaskilríkja frá Íslandi. Í millitíðinni hefur hins vegar verið látið reyna á það og komið hefur í ljós að það dugði ekki til. Það var eðlilegt að beiðnin væri því ítrekuð fyrir nefndinni," sagði Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar. Hann segir að ákvörðunin í dag hafi byggst á því að fullvissa hafi fengist um það að Fischer losnaði úr haldi fengi hann íslenskt ríkisfang. "Þegar það lá fyrir var ekki annað að gera en að taka ákvörðun í málinu. Margt hafði áhrif á einróma afstöðu manna í nefndinni, í fyrsta lagi tengsl hans við landið, en menn þekkja söguna í því. Í öðru lagi það að stjórnvöld höfðu áður gert tilraun til að greiða leið mannsins til landsins og í þriðja lagi mun íslenskur ríkisborgararéttur verða til þess að Fischer losnar úr haldi, en honum er haldið föngum í innflytjendabúðum í Japan. Því voru ákveðin mannúðarsjónarmið þar að leiðarljósi," segir Bjarni. Bjarni vonast til að málið verði tekið fyrir á Alþingi eftir helgi. "Ég á von á því að frumvarp verði lagt fram á mánudaginn og síðan býst ég við því að þingið verði jákvætt fyrir því að flýta afgreiðslu þessa máls. Fischer gæti því fengið íslenskan ríkisborgararétt strax í næstu viku," segir Bjarni. Davíð Oddsson utanríkisráðherra segist ekki þekkja nein fordæmi fyrir máli Fischers. "Hugsanlega væri hægt að horfa til þess er Vladimir Aszkenasy var veittur ríkisborgararéttur, en ólíkt Fischer var hann pólitískur flóttamaður. Við höfum velt fyrir okkur fordæmissjónarmiðum en teljum að þetta mál sé svo einstakt og njóti slíkrar sérstöðu að það sé ekki hægt að skapa undarlegt fordæmi í því," segir Davíð.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×