Innlent

Óvíst um umsókn Fischers

Það er alls óvíst hvort umsókn Bobbys Fischers um ríkisborgararétt verði tekin til meðferðar í allsherjarnefnd, þó nefndin ætli að funda með stuðningsmönnum hans í fyrramálið.  Leiðtogi japanska Jafnaðarmannaflokksins, Mizuho Fukushima, hitti yfirmann innflytjendamála, Masaharu Miura, í morgun og sagði við blaðamenn eftir fundinn að yfirmaðurinn hefði sagt að ef Fischer fengi íslenskan ríkisborgararétt þá fengi hann að fara til Íslands. Íslenskir ráðamenn hafa hins vegar ekki fengið þessar upplýsingar beint frá þeim japönsku og þetta er því ekki nóg til að sannfæra þá um að ríkisborgararéttur geti bjargað Fischer. Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, segir að ef ákvörðun nefndarinnar eigi að grundvallast á einhverjum slíkum upplýsingum verði þær að koma frá fyrstu hendi.  Mál Fischers eru á dagskrá á fundi allsherjarnefndar í fyrramálið en það voru stuðningsmenn hans sem báðu um að fá að hitta nefndina. Þetta þýðir hins vegar ekki að nefndin ætli að afgreiða umsókn hans um ríkisborgararétt. „Það liggur ekkert fyrir á þessu stigi að taka málið til frekari meðferðar,“ segir Bjarni. Það verði óhjákvæmilega rætt en hann á ekki von á því að einhver stefnubreyting verði tekin í málinu. Stuðningsmenn Fischer minna á að tíminn er naumur því þann 5. apríl ákveða Bandaríkjamenn hvort þeirt ákæri Fischer fyrir skattsvik. Sæmundur Pálsson segist hreinlega ekki trúa öðru en að skrefið verði stigið til fulls og nefndin mæli með íslenskum ríkisborgararétti handa Fischer.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×