Innlent

Segja ráðningu ekki pólitíska

Ráðning fréttastjórans hefur ekkert með pólitík að gera, segja Framsóknarmenn, og benda á að Auðun Georg sé ekki í neinum stjórnmálaflokki og hafi aldrei tekið þátt í starfi Framsóknarflokksins. Málið var rætt í heitum umræðum á þingi í dag. Þingmenn stjórnarandstöðunnar fóru fram á það á Alþingi í dag að útvarpsstjóri endurskoðaði ákvörðun sína um að ráða Auðun Georg í starf fréttastjóra Útvarps. Sögðu þeir stjórnarflokkana hafi misnotað vald sitt í útvarpsráði, pólitísku valdi hefði verið misbeitt og litið fram hjá reynslu og hæfni annarra umsækjenda. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði öllu vikið til hliðar fyrir sérhagsmuni flokksgæðinganna og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, sagði að flokksskíteini í Sjálfstæðisflokknum væri nánast skilyrði fyrir ráðningu í yfirmannsstöðu á RÚV en Framsóknarflokkurinn ætti manninn í stöðu fréttastjóra útvarps. Auðun hefur hins vegar aldrei verið skráður í Framsóknarflokkinn eða nokkurn annan flokk og ekki tekið þátt í starfi hans. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þær dylgjur sem hafðar hefðu verið frammi um meint pólitísk tengsl nýráðins fréttastjóra hefðu ekki verið studdar með neinum rökum. Það væri bara fullyrt og fullyrt en engin tilraun gerð til þess að renna stoðum undir þær fullyrðingar. Pétur Gunnarsson, skrifstofustjóri Framsóknarflokksins og varamaður í útvarpsráði, greiddi atkvæði í ráðinu með Auðuni. Hann rökstyður það á fréttasíðu Framsóknarflokksins og segir að Auðun Georg einfaldlega hæfasta umsækjandanna bæði vegna menntunar og reynslu af fjölmiðlum og stjórnunarstörfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×