Erlent

Auka þrýsting á japönsk stjórnvöld

Stuðningsmenn Bobbys Fischers í Japan auka nú þrýsting sinn á japönsk stjórnvöld í viðleitni sinni til að fá Fischer leystan úr fangelsi og sendan til Íslands. Stuðningsmenn Fischers með Sæmund Pálsson í broddi fylkingar beina nú spjótum sínum að þingmönnum á japanska þingingu. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 áttu Sæmundur og félagar fund með háttsettum þingmönnum japönsku stjórnarandstöðunnar í dag. Auk þess hefur málið verið reifað í samtölum við þingmenn stjórnarflokkana sem sýnt hafa áhuga á að koma að lausn málsins. Stuðningshópurinn vill ekki upplýsa um árangur þessara funda en ljóst má þykja að þess er vænst að málið fái þjóðarathygli í Japan. Vonir standa til að ótti skapist meðal almennings að málið verði að álitshnekki fyrir Japan og þar með skapist þrýstingur á að leyst verði úr málunum í skyndi. Lögmaður Fischers, Miako Suzuki, hefur það eftir þingmönnum innan japanskan þingsins að best væri að Íslendingar tækju af skarið og veittu Bobby Fischer fullan ríkisborgararétt. Með því yrði endanlega höggvið á hnútinn og Japönum ekki stætt á öðru en að sleppa honum úr prísundinni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×