Innlent

Fischer: Yfirvöldum verður stefnt

Verði Bobby Fischer ekki látinn laus í Japan fyrir föstudaginn verður japönskum og bandarískum yfirvöldum stefnt og mótmæli verða skipulögð um allan heim. Heiminum verður gert ljóst að Bobby Fischer var rænt, segir John Bosnitch, helsti stuðningsmaður hans í Japan. Masako Suzuki, lögmaður Fischers, fór í japanska dómsmálaráðuneytið í morgun og bað um fund með fulltrúum þess þar sem þess verður krafist að skákmeistaranum verði sleppt lausum úr innflytjendabúðunum þar sem hann hefur verið í haldi undanfarna átta mánuði. Hún vonast eftir formlegu svari ráðuneytisins á morgun. Suzuki fékk vegabréf Fischers í hendur í gær og gerði sér vonir um að hann yrði látinn laus ekki seinna en á morgun, 9. mars, á 62 ára afmælisdegi hans. Ekki er hins vegar útlit fyrir að það verði að veruleika ef marka má upplýsingar sem bárust í morgun frá japanska dómsmálaráðuneytinu. Reuters-fréttastofan hefur það eftir fulltrúa ráðuneytisins að enn sé langt í að Fischer verði leystur úr haldi. Fulltrúinn segir að þrátt fyrir íslenskt vegabréf hafi engar breytingar orðið á á aðstæðum Fischers og að skilyrði fyrir brottför hans frá Japan séu því enn ekki til staðar. John Bosnitch, helsti stuðningsmaður Fischers í Japan, segir að nú sé nóg komið. Verði Fischer ekki látinn laus fyrir föstudag, þá verði heiminum gert það ljóst að honum var rænt. Hann segir engan lagalegan grundvöll fyrir því að hafa hann í haldi og hann telur öll skilyrði til staðar til þess að sleppa honum lausum. Bosnitch segir ljóst að japönsk yfirvöld haldi Fischer í bága við lög. Verði ekki orðið við þeirri kröfu að veita honum frelsi til að fara til Íslands verður japönskum og bandarískum yfirvöldum tafarlaust stefnt. Bosnitch segir einnig að mótmæli verði skipulögð við sendiráð Japans víða um heim í þeim tilgangi að vekja viðbrögð almennings við illri meðferð á skákmeistaranum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×