Innlent

Mikið áfall fyrir Fischer

Stuðningsmenn Bobbys Fischers eru sárir og reiðir yfir að allsherjarnefnd Alþingis skuli ekki leggja til að hann fái íslenskan ríkisborgararétt. Sæmundur Pálsson segir að þetta verði mikið áfall fyrir Fischer. Allsherjarnefnd Alþingis ákvað í morgun að mæla ekki með því að svo stöddu að Bobby Fischer fái ríkisborgararétt á Íslandi. Nefndin vill láta reyna á það með formlegum hætti hvort stjórnvöld í Japan taki mark á dvalarleyfi Fischers á Íslandi og íslenskum ferðaskilríkjum. Þau skilríki hafa ekki enn verið gefin út en Guðrún Ögmundsdóttir, sem á sæti í allsherjarnefndinni, telur rétt að stuðningshópur Fischers biðji um að fá skilríkin og staðfestingu á dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun sem hefur samþykkt að gefa það út. Stuðningsmenn Fischers segjast hafa gert ítrekaðar tilraunir til að fá þess pappíra en það hafi ekki tekist. Og stuðningsmennirnir segjast hafa orðið fyrir sárum vonbrigðum með að hann skuli ekki fá ríkisborgararétt strax. Sæmundur Pálsson er mikill vinur Fischers. Hann sagðist ekki hafa rætt við hann eftir þessa niðurstöðu allsherjarnefndar en kvíðir því að vini hans verði brugðið, m.a. vegna þess að hann hafi verið langt niðri upp á síðkastið vegna höfuðverkjar og svima. Nú eru liðnir tæpir átta mánuðir síðan Fischer var hnepptur í varðhald í Japan.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×