Innlent

Dulbúið orð yfir flugstöð

Samgöngumiðstöð er dulbúið orð yfir flugstöð, segir formaður Samtaka um betri byggð og óttast að slík bygging muni festa Reykjavíkurflugvöll í sessi. Formaður Hollvinasamtaka flugvallarins fagnar hins vegar áformunum. Búist er við að samgönguráðuneytið og borgaryfirvöld kynni í vikunni sameiginlega niðurstöðu um byggingu samgöngumiðstöðvar við Loftleiðahótelið sem bæði er ætlað að þjóna flugumferð og rútubílaumferð. Friðrik Pálsson, formaður Hollvinasamtaka flugvallarins, segir samtökin lítast mjög vel á hugmyndina og mestu máli skipti að ríki og borg séu að tala saman um þessa framtíðar skipulagningu. Hann vill vekja sérstaklega athygli á því að hugmyndin um samgöngumiðstöðina komi til því verið sé að flytja gömlu umferðarmiðstöðina. Það sé líka hagsmunamál að hafa miðstöð fyrir flugumferð og rútubílaumferð á sama stað. Flugvallarandstæðingum líst hins vegar engan veginn á þessi áform. Guðrún Jónsdóttir, formaður Samtaka um betri byggð, segir að ekki sé um að ræða samgöngumiðstöð heldur flugstöð. Hún þjóni fluginu en ekki hinum almenna borgara sem noti samgöngukerfið í Reykjavík, né þeim sem komi t.d. með rútu í bæinn og vill svo komast leiðar sinnar í borginni. Þetta er líka til að festa flugvöllinn í sessi að sögn Guðrúnar. Samgöngumiðstöðin er því ekkert annað en dulbúið orð yfir flugstöð að hennar sögn.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×