Innlent

Þingmenn styðji Fischer

Stuðningshópur Bobby Fischers hefur sent öllum alþingismönnum bréf þar sem farið er fram á að þeir veiti skáksnillingnum íslenskan ríkisborgararétt og stuðli að því að hann komist sem fyrst til Íslands úr sinni vondu japönsku fangavist. Í bréfinu eru rakin samskipti Fischers við Ísland og minnt á orð Halldórs E. Sigurðssonar sem var fjármálaráðherra árið 1972 þegar Fischer var krýndur heimsmeistari eftir sigur sinn á Boris Spassky. Halldór sagði þá: „Íslenska þjóðin árnar yður báðum allra heilla og mun fagna þeirri stundu ef þér ættuð eftir að sækja hana heim á ný.“ Nú, 33 árum seinna, á Fischer í miklum vanda, segja stuðningsmenn hans, og þarf sárlega á góðvilja og gestrisni íslensku þjóðarinnar að halda. Undir bréfið rita margir menn sem eru þekktir bæði úr skákheiminum og fyrir vináttu sína við Fischer.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×