Innlent

Þingmenn styðji Fischer

Stuðningshópur Bobby Fischers hefur sent öllum alþingismönnum bréf þar sem farið er fram á að þeir veiti skáksnillingnum íslenskan ríkisborgararétt og stuðli að því að hann komist sem fyrst til Íslands úr sinni vondu japönsku fangavist. Í bréfinu eru rakin samskipti Fischers við Ísland og minnt á orð Halldórs E. Sigurðssonar sem var fjármálaráðherra árið 1972 þegar Fischer var krýndur heimsmeistari eftir sigur sinn á Boris Spassky. Halldór sagði þá: „Íslenska þjóðin árnar yður báðum allra heilla og mun fagna þeirri stundu ef þér ættuð eftir að sækja hana heim á ný.“ Nú, 33 árum seinna, á Fischer í miklum vanda, segja stuðningsmenn hans, og þarf sárlega á góðvilja og gestrisni íslensku þjóðarinnar að halda. Undir bréfið rita margir menn sem eru þekktir bæði úr skákheiminum og fyrir vináttu sína við Fischer.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×