Innlent

Úttekt vegna lóðakaupa borgarinnar

Borgarfulltrúar R-listans samþykktu í gær tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar verði falið að gera úttekt á kaupum borgarinnar á svokölluðum Stjörnubíósreit við Laugaveg 86 - 94. "Ég fagna því að þessi tillaga hafi verið samþykkt," segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna. "Það kom mér ekki á óvart að hún skyldi vera samþykkt því á hvaða forsendum átti að hafna henni?" Vilhjálmur segir að athugun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á kaupunum leiði í ljós að borgin hafi keypt lóðina á alltof dýru verði af Jóni Ólafssyni árið 2002. Borgin hafi greitt 140 milljónir fyrir lóðina og síðan hafi það kostað 17 milljónir að rífa hús á svæðinu. Kostnaður borgarinnar af kaupunum hafi verið um 39 þúsund krónur á fermetra á meðan hámarksmarkaðsverð lóða á þessum stað á þessum tíma hafi verið um 25 þúsund krónur á fermetra. Kaup borgarinnar hafi því verið um 55 prósentum yfir hæsta markaðsverði. Vilhjálmur segist reikna með því að úttektinni verði lokið eftir fáeina mánuði. "Innri endurskoðun borgarinnar er tiltölulega ung stofnun og að minni hyggju verður þetta ákveðinn prófsteinn á hennar störf."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×