Innlent

Fegin að málinu sé lokið

Guðmundur Guðlaugsson, bæjarstjóri á Patreksfirði, segir að fórnarlömb mannsins sem fékk fjögurra ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Vestfjarða í gær hafi öll fengið aðstoð vegna áfallsins. Yfirheyrslur og rannsókn málsins hafi reynt mikið á og hann sé feginn að málinu sé lokið. Nanna Sjöfn Pétursdóttir, skólastjóri grunnskólans þar, tekur í sama streng. Fyrrverandi yfirmaður félagsmiðstöðvar á Patreksfirði, sem einnig hafði starfað sem lögreglumaður, fékk fjögurra ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Vestfjarða í gær fyrir kynferðisbrot gegn fimm drengjum. Brotin voru framin á tæplega tveggja ára tímabili og eru sögð hafa haft alvarleg áhrif á sjálfsmynd drengjanna sem litu upp til mannsins, enda hafði hann yfir þeim að segja sem starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar. Guðmundur Guðlaugsson bæjarstjóri segir málið hafa reynt á alla. Svona mál reyni alltaf á samfélagið, bæði þar sem þau gerist og landið allt. Hann segir fórnarlömb mannsins og aðstandendur þeirra hafa fengið aðstoð vegna áfallsins hjá opinberum aðilum sem hana veita. Að sögn Guðmundar gengur lífið þó sinn vanagang á Patreksfirði og fólk er bjartsýnt.   Nanna Sjöfn Pétursdóttir, skólastjóri grunnskólans, segir að málið hafi verið áfall fyrir hana persónulega enda maðurinn starfsmaður skólans. Hún segir að reynt hafi verið að bæta andrúmsloftið í skólanum eins og hægt var, t.a.m. með aðstoð frá Barnaverndarstofu, sálfræðingum og félagsráðgjöfum. „Við höfum lagt aðaláherslu á að halda skólastaarfinu í sem eðlilegustu horfi,“ segir Nanna og vonar að með dómnum sé þessu loksins lokið. 


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×