Innlent

Dæmdur fyrir kynferðisbrot

Rúmlega þrítugur karlmaður, Sigurbjörn Sævar Grétarsson, var í gær dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir kynferðisbrot gegn fimm drengjum á aldrinum tólf til fjórtán ára. Sigurbjörn var ákærður fyrir brot gegn sjö drengjum en sakfelldur fyrir að tæla fjóra þeirra til kynmaka, annara en samræðis og að hafa brotið gegn blygðunarsemi drengjanna fimm, meðal annars með því að sýna þeim klámmyndir af fullorðnu fólki og ungum drengjum. Drengjunum fimm voru dæmdar bætur, frá 50.000 krónum til 700.000 króna. Brotin, sem Sigurbjörn var sakfelldur fyrir, áttu sér stað á árunum 2002 til 2004. Hann var einnig ákærður fyrir brot sem áttu að hafa gerst á árunum 1991 til 1994, en þeirri bótakröfu var vísað frá dómi. Maðurinn er fyrrverandi lögreglumaður á Patreksfirði og starfaði sem forstöðumaður félagsmiðstöðvar bæjarins. Lögreglan gerði húsleit á heimili hans fyrir ári síðan og í kjölfarið var hann yfirheyrður og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Í dómi Héraðsdóms segir að við ákvörðun refsingar hafi orðið að líta til þess að maðurinn hafi sem forstöðumaður félagsmiðstöðvar haft boðvald yfir drengjunum og þeir litið upp til hans. Þá hafi foreldrar drengjanna treyst honum fyrir þeim en hann brugðist því trausti. Sigurbjörn hafi rætt við drengina um kynlíf og sýnt þeim klámmyndir á viðkvæmu þroskastigi, að því er virðist undir því yfirskini að hann væri að fræða þá. Hann hafi með þessu virst á kerfisbundinn hátt hafa leitast við að gera þá móttækilega fyrir kynmökum. Það hafi farið eftir viðnámsþrótti drengjanna hversu langt hann gekk. Þykir Héraðsdómi sú aðferð sýna skýran og einbeittan brotavilja Sigurbjörns. Í dómnum segir að ljóst þyki að brotin gegn drengjunum séu til þess fallin að valda þeim sálrænu tjóni sem geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjálfsmynd þeirra og þroska, en sumir þeirra hafi upplifað skömm og sektarkennd vegna brotanna. Ákærði þótti ekki eiga sér neinar málsbætur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×