Innlent

Léttlestarkerfi ekki raunhæft

Léttlestarkerfi er ekki raunhæfur kostur á höfuðborgarsvæðinu við óbreyttar aðstæður, segir Árni Þór Sigurðsson, formaður samgöngunefndar Reykjavíkurborgar. Sjálfstæðismenn telja eðlilegra að efla stórlega vannýtt strætisvagnakerfi þar sem sætanýtingin sé aðeins um 10 prósent. VSÓ-ráðgjöf vann skýrslu fyrir Reykjavíkurborg um kosti og galla þess að koma á léttlestarkerfi á höfuðborgarsvæðinu og var hún kynnt fyrir samgöngunefnd borgarinnar fyrr í vikunni. Meginniðurstaðan var sú að stofnkostnaður við slíkt almenningssamgangnakerfi yrði um 25 milljarðar króna og að árlegur kostnaður léttlestanna yrði sex og hálfur milljarður króna. Til samanburðar nemur kostnaður við nýtt leiðakerfi Strætós um 2,7 milljörðum króna en árlegur kostnaður núverandi strætisvagnakerfis er metinn á rösklega tvo milljarða. Kjartan Magnússon, fulltrúi minnihluta Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir að skýrsla sýni að hugmyndir Reykjavíkurlistans um léttlestirnar séu fullkomlega óraunhæfar og óábyrgar. Árni Þór Sigurðsson, formaður samgöngunefndar borgarinnar, bendir á að samgöngunefnd hafi verið einhuga í því að láta athuga möguleikann á léttlestarkerfinu og því séu viðbrögð minnihlutans við niðurstöðum ráðgjafaskýrslunnar kyndug. Hins vegar er kostnaðurinn meiri en gert var ráð fyrir í uppphafi og leiðin því varla fær við óbreyttar aðstæður að sögn Árna. Sjálfstæðismenn hafa bent á að nær væri að styrkja strætisvagnakerfið í borginni, sem sé sé stórlega vannýtt, þar sem sætanýting sé aðeins í kringum 10 prósent. Kjartan Magnússon segir að fyrir vextina af fjárfestingu vegna sporvagnakerfis væri unnt að standa straum af tvöföldun fjölda strætisvagna í borginni. Formaður samgöngunefndar segir að ekki verði hjá því komist að styrkja almenningssamgöngur. Þær séu 4-5% allra ferða á höfuðborgarsvæðinu og mikilvægt sé að auka hlutdeild þeirra, fyrst og fremst vegna þess að ekki er rými til að taka við auknum umferðarþunga einkabíla.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×