Innlent

Vinna hafin að skipulagi Vatnsmýri

Vinna að heildarskipulagi Vatnsmýrar er að hefjast aftur eftir um tveggja ára hlé. Skipulagsnefnd Reykjavíkur hefur skipað stýrihóp til að halda utan um skipulagið. Dagur B. Eggertsson, formaður nefndarinnar, á sæti í stýrihópnum og segir að það verði unnið ötullega að skipulaginu á næsta ári og verkáætlun verði kynnt skömmu eftir áramót. Hann segir að samráð verði haft við íbúa og hagsmunaaðila. "Við viljum líka reyna að laða fram hugmyndaríkustu hugsuði allra kynslóða þannig að við nýtum þetta einstaka tækifæri vel. Þetta er mest spennandi verkefni í borgarskipulagi sem við höfum tekist á hendur." Dagur segir að með þessu sé komið í veg fyrir að skipulag Vatnsmýrar verði tilviljanakennt og einstakir reitir svæðisins skipulagðir óháð hinum. "Það verður hugað að heildarsvip svæðisins, bæði á mannlífsásnum svokallaða sem nær frá Nauthólsvík niður í bæ og á þekkingarásnum frá Háskóla Íslands að Landspítala-Háskólasjúkrahúsi." Auk Dags sitja í stýrihópnum þær Anna Kristinsdóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×