Innlent

Óábyrgt að hækka ekki skatta

Það væri óábyrgt að hækka ekki skatta til að auka tekjur borgarinnar og tryggja borgarbúum aukna þjónustu, segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri. Merki um óráðsíu og það óefni sem R-listinn er kominn í segja Sjálfstæðismenn í borgarstjórn.  Steinunn Valdís mælti í dag fyrir fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2005. Hún sagði að mörku að hyggja í stóru sveitarfélagi og undirstrikaði að borgarbúar skynjuðu þá ábyrgð sem þeim væri falin. Þrátt fyrir ábyrga stjórnun í rekstri borgarinnar væru ýmis teikn á lofti sem taka bæri alvarlega og kölluðu á aðhald. Steinunn sagði að það hefði ekki reynst erfið ákvörðun að hækka útsvar og fasteignaskatt. Þetta snerist einfaldlega um ábyrgð og festu í fjármálum. Sveitarfélögin hafi verið í viðræðum við ríkið um aukna tekjustofna og ríkið hafi bent á að þau hafi ekki fullnýtt tekjustofnana. „Við erum að taka við fjölmörgum verkefnum og auka þjónustu og því væri það ábyrgðarleysi að auka ekki tekjur sínar eins og við erum að gera nú,“ sagði borgarstjóri.    Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn, sagðist gefa lítið fyrir svona málflutning. R-listinn hefði komið sér í slík óefni vegna óráðsíu í fjármálum og vegna aukinnar skuldasöfnunar. „Ef hann hefði hagað sér þokkalega í fjármálastjórninni á undanförnum árum hefði hann ekki þurft að nýta þessa heimild,“ sagði Vilhjálmur.  Vilhjálmur sagði skattahækkanir skjóta skökku við því árið 2002 hafi þáverandi borgarstjóri lofað að hækka ekki álögur á borgarbúa á næstu fjórum árum vegna skuldasöfnunar. Steinunn Valdís segir forsendur hafa breyst síðan þá. Ýmislegt hafi breyst sem á þeim tíma hafi ekki verið fyrirséð, t.d. aukning einkahlutafélaga og hækkun húsaleigubóta sem hafi komið verulega illa við Reykjavíkurborg.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×