Innlent

Besta orkuverð hér á landi

Orkuveita Reykjavíkur samdi við Norðurál um besta orkuverð til stóriðju sem fengist hefur hér á landi, staðhæfir Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitunnar. Hann segir samninginn afar þýðingarmikinn fyrir atvinnulíf á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að ekki sé verið að undirbjóða Landsvirkjun með verði sem leiði ekki af sér arð. Þau verð sem fengist hafi séu bestu verð sem fengist hafi hér á landi. Alfreð segir þær framkvæmdir sem af samningunum leiða hafa gríðarlega þýðingu fyrir atvinnulíf og nefnir sem dæmi að um eittþúsund manns starfi nú um stundir bæði við virkjanaframkvæmdir og stækkun Norðuráls. Þegar upp verði staðið skapist um fimmhundruð framtíðarstörf hjá Norðuráli, sem megi margfalda með 1,5 - 2 til að fá út afleidd störf. Hann segir að um sé að ræða 1200-1500 hálaunastörf, sem skapi mikla möguleika fyrir allt svæðið. Hann segir Hellisheiði bjóða upp á mikla framtíðarmöguleika og þar rísi hugsanlega tvær til þrjár nýjar jarðgufuvirkjanir á næstu tíu til fimmtán árum. Alfreð segir útlit fyrir að hægt sé að virkja fyrir 600 megavött fyrir rafmagn, sem sé næstum því eins og heil Kárahnjúkavirkjun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×