Innlent

Börnum fækkar í borginni

Börnum upp að fimm ára aldri fækkaði um rúm fimm prósent í Reykjavík frá árinu 1994 til ársins 2003, úr 7.626 í 7.224. Á sama tíma fjölgaði börnum á þessum aldri í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um 548. Þar af fjölgaði þeim mest í Kópavogi, um 528, og í Mosfellsbæ, um 146. Þeim fækkaði hins vegar á Seltjarnarnesi um 121 og um 41 í Garðabæ . Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir þetta undarlega þróun á sama tíma og stórfelldir fólksflutningar til höfuðborgarsvæðisins eigi sér stað. Fækkun barna á sama tíma sýni það svart á hvítu að barnafjölskyldur séu að flytja úr borginni. ,,Ástæðurnar fyrir því að þessar fjölskyldur flytja á brott eru lóðaskortur og andstaða Reykjavíkurlistans við byggingu sérbýlishúsa. Öll áherslan er lögð á byggingu fjölbýlishúsa og til dæmis er aðeins gert ráð fyrir að sex prósent af húsum í fyrirhuguðu Úlfarsfellshverfi verði einbýlishús." Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans, segir að börnum á þessum aldri fækki á landinu öllu og því sé eðlilegt að það komi líka fram í Reykjavík. "Fæðingatíðni er að lækka og það er meginskýringin. Þannig hefur leikskólabörnum fækkað um 1.100 á landinu öllu frá árinu 1997. Það er hins vegar Kópavogur sem sker sig úr. Hins vegar hefur börnum á grunnskólaaldri fjölgað um 1.600 í Reykjavík frá árinu 1994. Þannig að þetta er flókin mynd og það er engin ein ástæða fyrir þessu eins og sjálfstæðismenn halda fram." Guðlaugur Þór segir borgina missa tekjur á þessari þróun til hinna sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu. Tölur um tekjuaukningu þeirra sýni fram á það, en frá árinu 1992 hafi skatttekjur Reykjavíkurborgar aukist um sjötíu prósent á meðan skatttekjur annarra sveitarfélag á þessu svæði hafi aukist frá 92 prósentum upp í 102 prósent.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×