Innlent

Ólík kosningabarátta

Tíu dögum fyrir forsetakosningar keppast frambjóðendurnir Ástþór Magnússon og Baldur Ágústsson við að koma sér á framfæri en þó með ólíkum hætti. Baldur Ágústsson mætti í hádeginu ásamt kosningastjóra sínum í dreifingarmiðstöð Íslandspósts á Stórhöfða í Reykjavík. Þar ávarpaði hann starfsfólk í mötuneytinu. Ávarp Baldurs var örstutt, aðeins tæplega tvær mínútur, en því næst bauð hann fólki að spyrja. Spurningar voru engar og Baldur þakkaði fyrir sig og óskaði mönnum góðrar máltíðar. Þar með var vinnustaðafundinum lokið en hann stóð í nákvæmlega tvær mínútur og 32 sekúndur. Baldur segir að sér sé tekið vel þar sem hann fer, fólk vilji frið um embættið og fagni því að kominn sé fram ópólitískur valkostur. Á leiðinni út spjallaði Baldur við tvær konur stutta stund en annað gerðist ekki í þessari örstuttu heimsókn hans til Íslandspósts. Barátta Ástþórs Magnússonar þessa dagana snýst aðallega um það að komast að í fjölmiðlum. Hann komst að í dag í 45 mínútur á Hrafnaþingi Ingva Hrafns á Útvarpi Sögu, reyndar óboðinn. Hann sagðist vilja kynna boðskap sinn fyrir Ingva Hrafni þar sem hann hefði greinilega ekki kynnt sér hann nægilega vel sjálfur. Ingvi Hrafn lét að því liggja að Ástþór væri ekki með öllum mjalla. Hann spurði hann hvort hann hefði farið í geðrannsókn en Ástþór neitaði því, hins vegar væri hann tilbúinn til þess hvenær sem er. Ástþór þótti komast ágætlega frá óþæglegum spurningum og Ingvi Hrafn gaf honum sitt heilbrigðisvottorð. Hann væri prúður maður og liti vel út, eins og geðheilbrigður maður.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×