Innlent

Ólafur með mesta fylgi

Tæplega tveir af hverjum þremur Íslendingum hyggjast kjósa Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, í forsetakosningunum sem fram fara þann 26. júní næstkomandi. Þetta kemur fram í skoðanakönnun Fréttablaðsins sem gerð var um helgina. Fylgi Ólafs Ragnars mælist 63,8 prósent í könnuninni og mælist fylgi annarra frambjóðenda aðeins brot af fylgi hans. Fimm prósent aðspurðra hyggjast kjósa Baldur Ágústsson og 0,6 prósent Ástþór Magnússon. Þá sögðust 15 prósent aðspurðra ætla að sitja heima á kjördag og rúm tíu af hundraði eru enn óákveðin. 6,5 prósent neituðu að svara eða vildu annan frambjóðanda. Ef aðeins er litið til þeirra sem afstöðu tóku, tæpra 70 prósenta aðspurðra, nýtur Ólafur Ragnar fylgis níu af hverjum tíu. Fylgi Ástþórs mælist tæplega eitt prósent og Baldurs rúmlega 7 prósent. Ólafur Ragnar Grímsson nýtur meira fylgis meðal kvenna en karla. 93,6 prósent kvenna sem afstöðu tóku sögðust ætla að kjósa Ólaf Ragnar meðan 86,3 prósent karla hugðust gera slíkt hið sama. Talsvert fleiri karlar en konur hugðust hins vegar kjósa Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon en fylgi Ástþórs mælist ekkert meðal kvenna. Lítill munur mældist á fylgi Ólafs Ragnars á landsbyggðinni og í þéttbýli, 90,3 prósent íbúa í þéttbýli hyggjast veita honum atkvæði sitt samanborið við 89,5 prósent íbúa landsbyggðarinnar. Fylgi Baldurs mælist ívið meira á landsbyggðinni en þar er fylgi Ástþórs ekki mælanlegt. 1,5 prósent íbúa í þéttbýli hyggjast hins vegar kjósa Ástþór. Úrtakið í skoðanakönnun blaðsins var 800 manns sem skiptist jafnt á milli kynja og hlutfallslega milli kjördæma. Spurt var: Hvaða frambjóðanda myndir þú kjósa sem forseta Íslands ef gengið yrði til kosninga nú?


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×