Innlent

Tilhlökkun í hópnum

"Það ríkir mikil tilhlökkun meðal kórfélaga," segir Jón Hallsson, formaður Karlakórs Reykjavíkur, en kórinn er á leið til Englands til tónleikahalds fyrstu helgina í desember. Í 78 ára sögu sinni hefur kórinn aldrei til Englands komið þrátt fyrir að hafa sungið um víða veröld, til dæmis í Kína, Bandaríkjunum og Rússlandi. "Við vildum gera eitthvað á aðventunni og ákváðum að nýta prógrammið sem við höfum æft að undanförnu. Úr varð að fara til Englands en áður syngjum við í Reykholti og svo í Hallgrímskirkju eftir heimkomuna." Yfir 70 félagar eru í Karlakór Reykjavíkur og halda þeir vitaskuld flestir utan og margir bjóða eiginkonunni með. Fyrir þær þarf að greiða úr eigin vasa en kórinn borgar bróðurpart ferðakostnaðar kórfélaganna sjálfra. Kórinn heldur fyrst hljómleika í Southwark-dómkirkjunni í Lundúnum sem stendur við Thames-ána, rétt við hina sögufrægu Lundúnabrú. "Svo heimsækjum við líka erkibiskupssetrið í Kantaraborg og það er okkur mikil ánægja að geta komist þangað," segir Jón formaður. Að endingu syngur kórinn í jólamessu Íslendingasafnaðarins í Lundúnum. Viðbúið er að einhverjir Íslendingar bregði sér utan til að hlýða á Karlakór Reykjavíkur flytja jóladagskrá sína í Southwark-dómkirkjunni því Icelandair efnir til sérstakrar hljómleikaferðar dagana 2. til 4. desember. Förin kostar 43.437 krónur á mann og miðast verðið við tveggja manna herbergi á Somerset Bayswater-hótelinu. Miði á tónleikana fylgir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×