Innlent

Ekki sama vöfflur og vöfflur

Sá siður hefur lengi verið viðhafður að bjóða upp á vöfflur í húsakynnum Ríkissáttasemjara þegar nýir kjarasamningar eru undirritaðir. Ekki var brugðið út af þeirri venju á miðvikudaginn þegar sáttir náðust í kjaradeilu kennara. Sesselja M. Matthíasdóttir, sem jafnan er kölluð Maggý, sér um vöfflurnar á þeim bænum og sagðist hún aðspurð notast við vöfflumix frá Kötlu. Hún lætur þó ekki duga að blanda það vatni heldur setur hún örlítið af matarolíu og ögn af vanillu út í. Þá bætir hún stundum mjólk saman við. Úr þessu verða ljómandi góðar vöfflur, um það vitna þeir sem bragðað hafa. Það er annars galdur að búa til góðar vöfflur og ekki á allra færi, nema þeir hafi góða uppskrift. Samanburðarrannsóknir á nokkrum viðurkenndum uppskriftum leiða í ljós að uppistaðan er jafnan hveiti, smjörlíki, sykur, egg og mjólk. Misjafnt er hins vegar hvort lyftidufti er bætt við, sumir kjósa það en aðrir ekki. Eins er misjafnt hvernig og hvort dropar eru notaðir en sé svo koma ýmist kardemommu-, vanillu- og sítrónudropar til greina. Sumar vöffluuppskriftir gera ráð fyrir örlitlu salti og enn aðrar rjómalögg. Reyndar leiddu athuganir í ljós að minnst tuttugu vöffluuppskrifir virðast á floti í samfélaginu en flestar eru þær keimlíkar. Erfitt er að mæla með einhverri einni uppskrift og í raun þarf hver og einn að finna sinn takt, sitt bragð, enda bragðlaukarnir misjafnir. Óhætt er þó að hvetja fólk til prófa sig áfram og eins er óhætt að benda á leið Maggýjar hjá Sáttasemjara. Vöfflurnar hennar eru jú rómaðar um alla verkalýðshreyfingu og einnig langt inn í raðir atvinnurekenda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×