Inter á toppinn eftir endurkomusigur í frábærum Mílanó-slag | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stefan de Vrij fagnar eftir að hafa skorað þriðja mark Inter.
Stefan de Vrij fagnar eftir að hafa skorað þriðja mark Inter. vísir/getty

Inter var 0-2 undir í hálfleik gegn AC Milan í Mílanó-slagnum í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld en kom til baka og vann 4-2 sigur.

Zlatan Ibrahimovic skoraði síðara mark Milan og lagði það fyrra upp í sínum fyrsta Mílanó-slag síðan 2012. Hann var svo hársbreidd frá því að jafna fyrir Milan undir lokin.

Með sigrinum komst Inter á topp deildarinnar. Liðið er með jafn mörg stig og Juventus. Lazio er svo aðeins einu stigi á eftir þeim. Milan er í 10. sætinu.

Milan var miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Ante Rebic kom gestunum yfir á 40. mínútu eftir skalla Zlatans og Svíinn skoraði svo annað mark Milan í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Inter-menn mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og á 51. mínútu minnkaði Marcelo Brozovic muninn í 1-2 með góðu skoti fyrir utan vítateig.

Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Úrúgvæinn Matias Vecino eftir sendingu frá Alexis Sánchez.

Á 70. mínútu kom Ve Vrij Inter yfir með frábærum skalla eftir hornspyrnu Antonio Candreva.

Zlatan skaut í stöng í uppbótartíma og Romelu Lukaku gulltryggði svo sigur Inter þegar hann skoraði fjórða mark liðsins. Lokatölur 4-2, Inter í vil.

Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira