Frönsku meistararnir voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Edinson Cavani kom þeim yfir á 18. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Blaise Matuidi.
Oliver Giroud jafnaði metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks úr vítaspyrnu sem Alexis Sánchez náði í.
Arsenal byrjaði seinni hálfleikinn betur en Lucas Moura var nálægt því að koma PSG öðru sinni yfir þegar hann skaut í slá beint úr aukaspyrnu á 54. mínútu.
Fimm mínútum síðar varð ítalski miðjumaðurinn Marco Verratti fyrir því óláni að skora sjálfsmark og Arsenal komið yfir, 2-1.
Á 77. mínútu kom svo annað sjálfsmark. Það gerði Alex Iwobi þegar hann reyndi að bjarga því að skalli Lucas færi á mark Arsenal. Lokatölur 2-2 í hörkuleik.