Innlent

Kaffitár bíður enn eftir gögnum frá Isavia: „Þeir verða að afhenda gögnin“

Birgir Olgeirsson skrifar
Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs.
Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs.
„Þeir verða að afhenda gögnin,“ segir Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, sem bíður eftir gögnum frá ríkisfyrirtækinu Isavia, sem annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi, sem varða útboð á veitinga- og verslunarhúsnæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Miðnesheiði í fyrra.

Kaffitár var eitt þeirra fyrirtækja sem gerði tilboð í veitingarými í flugstöðinni en fékk ekki. Fyrirtækin Joe and the Juice og Segafredo hrepptu rýmið og krafðist Aðalheiður þess að fá að sjá niðurstöður og rökstuðning Isavia fyrir því að velja þessi fyrirtæki fram yfir önnur. Isavia neitaði að afhenda gögnin og fór svo að Aðalheiður fór með málið fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að Isavia beri að afhenda henni þessi gögn.

Úrskurður féll 31. júlí síðastliðinn og sendi Aðalheiður Isavia bréf síðastliðinn föstudag þar sem óskað var eftir gögnunum tafarlaust. „Enda segir úrskurðurinn að það eigi að afhenda þetta strax,“ segir Aðalheiður.

Hún segir að ef Isavia afhendir ekki gögnin verður farið með málið til sýslumanns sem mun sækja þau.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia eru lögmenn fyrirtækisins með úrskurðinn til skoðunar og verið sé að skoða næstu skref.

„Við eigum von á að fá einhverjar fleiri hundruð síður af einhverjum gögnum og þá skoðum við hvað hinir voru að bjóða,“ segir Aðalheiður. „Þá sjáum við bara hvernig var gefið miðað við útboðsgögnin af því okkur finnst frekar skrýtið að við höfum tapað fyrir þessu ítalska kaffifyrirtæki Segafredo. Af því að í útboðsgögnum er til dæmis lögð áhersla á íslenskar áherslur, íslenskt bakkelsi og bjóða upp á það besta sem Ísland og Reykjavík hefur upp á að bjóða og ég skil ekki hvernig þessi ítalska keðja skorar hærra en við.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×