Fleiri fréttir

Mikill hiti í jarðstreng Orkuveitunnar vegna þurrka

Jarðstrengur Orkuveitu Reykjavíkur frá Nesjavallavirkjun hefur hitnað svo mikið í þurrkunum að starfsmenn orkuveitunnar voru farnir að íhuga að vökva hann. Rigningin í nótt og í morgun dró aðeins úr spennunni hjá Orkuveitunni.

Maður talinn lærbrotinn eftir vélhjólaslys

Vélhjólamaður slasaðist á æfingabraut fyrir krossara í Hlíðarfjalli á Akureyri í dag. Að sögn lögreglunnar á Akureyri var maðurinn fluttur á slysadeild og talið var að hann hefði lærbrotnað.

SVÞ taka undir með Högum hf

Samtök verslunar og þjónustu taka undir með Högum í deilum sem staðið hafa um matvöruverð að undanförnu. Forstjóri Haga sagði í dag að Alþýðusamband Íslands stundaaði atvinnuróg gegn verslunum Haga og sagði að kallaðir yrðu til dómskvaddir matsmenn til að meta fréttaflutning ASÍ af verðlagi í verslunum.

Óttast var um þýsk hjón fyrir vestan

Björgunarsveitir á vestfjörðum voru kallaðar út vegna þýskra hjóna sem voru í siglingu frá Bolungarvíkur til Súðavíkur, en leitin var afturkölluð þegar þau fundust rétt fyrir utan Súðavík. Óttast var í fyrstu að báturinn væri skemmdur, og þegar ekki náðist samband við hjónin var hafin allsherjarleit. Hjónin sigldu í litlum sjóstangveiðibát.

Mikill áhugi erlendis á íslensku orkuverkefni

Mikill áhugi er hjá erlendum aðilum að taka þátt í verkefni Íslenskrar Nýorku um notkun vetnis sem orkugjafa í stað olíu eða annarra kolefnisorkugjafa. Framkvæmdastjóri Íslenskrar Nýorku segir stefnu íslenskrar stjórnvalda varðandi vistvæna orku eiga mikinn þátt í þessum áhuga. Fjallað var var um verkefnið á vefsíðu bandarísku sjónvarpstöðvarinnar CNN.

Fíkniefni fundust við húsleit

Lögreglan fann ætluð fíkniefni við húsleitir í tveimur íbúðum í úthverfum á höfuðborgarsvæðinu í gær. Karl og kona, sem bæði eru á þrítugsaldri, voru handtekin í þágu rannsóknar málsins. Bæði hafa komið við sögu hjá lögreglu áður. Húsleitirnar voru framkvæmdar að undangengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Faxaflóahafnir sf. í samstarf við næst stærstu höfn Kína

Faxaflóahafnir sf. og höfnin í Qingdo í Kína undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samstarf og samvinnu. Viljayfirlýsingu þessari verður fylgt eftir með gerð formlegs samstarfssamnings sem verður undirritaður síðar. Höfnin í Qingdao er sú önnur stærsta í Kína og sú tíunda stærsta í heiminum. Að auki eru hún stærsta höfn Kína í frystum og kældum afurðum.

Lýsa yfir áhyggjum vegna samdráttar í þorskkvóta

Fyrirtæki og heimili á Vestfjörðum verða fyrir miklum tekjuskerðingum vegna samdráttar í þorskkvóta og því mikilvægt að stjórnvöld grípi strax til mótvægisaðgerða. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga. Stjórnin lýsir yfir alvarlegum áhyggjum af stöðu mála.

Fullur og á stolnum bíl

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í nótt nítján ára pilt fyrir ölvunarakstur í Garðabæ. Bíllinn sem pilturinn var á reyndist við nánari skoðun vera stolinn.

117 tonna spennar eru þyngstu hlutir sem hafa farið eftir vegakerfinu

117 tonna spennar hafa verið fluttir eftir þjóðvegum frá Reyðarfirði í stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal í sumar. Spennarnir eru þyngstu hlutir sem farið hafa eftir vegakerfinu. Þar að auki er flutningabúnaður 74 tonn og heildarþungi því 191 tonn. Mikil vinna var lögð í að reikna út burðargetu brúa á leiðinni.

Eldur kviknaði í potti

Eldur kviknaði í potti í heimahúsi í Hafnarfirði í gær þegar húsmóðirin var að laga mat. Einn heimilismanna sýndi snarræði og náði að slökkva eldinn með handslökkvitæki og koma þannig í veg fyrir stórtjón. Töluverður reykur mætti lögreglu og slökkviliði þegar komið var á vettvang en heimilisfólkið, tveir karlar og kona, komst út af sjálfsdáðum.

Geiri í Goldfinger braut ekki lög um nektardans

Ásgeir Þór Davíðsson, betur þekktur sem Geiri í Goldfinger, var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness í dag af ákæru um að hafa staðið fyrir nektardanssýningu í lokuðu rými. Dansmey sem einnig var ákærð í málinu var líka sýknuð. Að mati dómsins þótti ekki sýnt að dansinn hafi farið fram í lokuðu rými líkt og bannað er samkvæmt lögreglusamþykkt.

Dæmdur sekur fyrir vörslu fíkniefna

Karlmaður var í Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag dæmdur til að greiða 40 þúsund krónur í sekt fyrir að hafa í fórum sínum ólöglegt fíkniefni. Maðurinn var með 0,94 grömm af amfetamíni þegar lögreglan hafði afskipti af honum í Hafnarstræti á Akureyri í síðastliðnum aprílmánuði. Með brotinu rauf maðurinn skilorð fyrri dóma.

Dæmdur fyrir brot á fíkniefnalögum

Karlmaður var í Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag sakfelldur fyrir að hafa í sinni vörslu ólögleg fíkniefni. Um var að ræða 23,15 grömm af hassi og 0,93 grömm af marihúana. Með brotinu rauf maðurinn skilorð reynslulausnar frá því í janúar á þessu ári.

Blár páfagaukur laus á Lynghálsi

Blár páfagaukur sást í bílageymslu Glitnis á Lynghálsi 4. Í sama húsi og Europris. Ef einhver er að leita að gauksa má hafa samband við Pál Snorra 892-5746.

Vegfarendur beðnir að sýna aðgát á Kræklingahlíð

Vegna hættu á blæðingum í slitlagi á Kræklingahlíð norðan Akureyrar eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát meðan þetta ástand varir og fylgja fyrirmælum um lækkun á umferðarhraða. Vegna framkvæmda verður Vatnsfjarðarvegur númer 633 lokaður frá klukkan 07:00 miðvikudaginn 18. júlí til hádegis laugardaginn 21. júlí. Opið verður út í Reykjanes úr Mjóafirði.

Vinstri grænir vilja fresta samningum við stóriðjufyrirtæki

Hvorki á að gera samninga við stóriðjufyrirtæki né úthluta rannsóknarleyfum til orkufyrirtækja á meðan unnið er að náttúruverndaráætlun fyrir árin 2008 til 2012. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þingflokki Vinstri grænna. Flokkurinn lýsir yfir miklum áhyggjum vegna stefnu ríkisstjórnarinnar að heimila áframhaldandi undirbúning álverksmiðja í Helguvík, Straumsvík og á Húsavík.

Atvinnuleysi 3,2 prósent á 2. ársfjórðungi þessa árs

Atvinnuleysi var 3,2 prósent á 2. ársfjórðungi þessa árs samkvæmt samantekt Hagstofunnar á atvinnuþáttöku og atvinnuleysi. Að meðaltali voru því tæplega sex þúsund manns án vinnu og í atvinnuleit á tímabilinu. Atvinnuleysi var mest meðal fólks á aldrinum 16 til 24 ára eða 10,2 prósent. Fleiri karlar voru atvinnulausir en konur.

Aukið eftirlit skýrir fjölgun hraðakstursbrota

Aukið eftirlit lögreglu og fjölgun bíla á landinu skýrir að mestu leyti mikla fjölgun hraðakstursbrota á undanförnum árum að mati Kristínar B. Þorsteinsdóttur, fræðslufulltrúa hjá Umferðarstofu. Hún segir það einnig áhyggjuefni að ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna hafi aukist eins og raun ber vitni. Hraðakstursbrotum í júnímánuði hefur fjölgað um helming á síðustu tveimur árum.

Icelandair hefur flug til Toronto næsta vor

Icelandair hefur ákveðið að hefja beint áætlunarflug milli Íslands og Toronto í Kanada strax næsta vor. Ákvörðun um þetta var tekin í framhaldi af þeim samningi sem stjórnvöld undirrituðu í Ottawa í síðustu viku.

Tuttugu teknir fyrir hraðakstur á Akureyri

Lögreglan á Akureyri stöðvaði í dag 20 ökumenn fyrir hraðakstur en þar af voru átján teknir innanbæjar. Einn var tekinn á 106 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er 50.

Útafakstur við Bifröst

Bifreið fór útaf Vesturlandsvegi við Bifröst um áttaleytið í kvöld. Ökumaður var einn í bílnum en hann sakaði ekki.

Dalvegur við Digranesveg og Dalsmára lokaður vegna slysahættu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lokaði í kvöld fyrir umferð ökutækja á Dalvegi milli Digranesvegar og Dalsmára vegna slysahættu. Framkvæmdir standa yfir við götuna og hafði verktaki ekki gengið nægjanlega vel frá svæðinu að sögn lögreglu.

Hegningarlagabrotum fækkar milli ára

Rúmlega hundrað færri hegningarlagabrot voru skráð hjá lögreglunni í síðastliðnum júnímánuði miðað við sama mánuð í fyrra. Nokkuð hefur dregið úr þjófnuðum og innbrotum en á sama tíma fjölgar hraðakstursbrotum og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þetta kemur fram í afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra fyrir júnímánuð.

Íslensk erfðagreining finnur fyrsta erfðabreytileika fótaóeirðar

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa í samstarfi við Emory háskólann í Atlanta í Bandaríkjunum fundið fyrsta erfðabreytileikann sem tengist fótaóeirð. Fótaóeirð er algengur sjúkdómur og talið að 5 til 10 af hverjum hundrað einstaklingum á Vesturlöndum þjáist af honum. Uppgötvunin mun hjálpa til við að greina sjúkdómin og bæta meðferð gegn honum.

Búið að slökkva sinueld við Skautahöllina

Búið er að slökkva sinueld við Skautahöllina í Laugardal en um 40 til 50 fermetra gróðursvæði varð eldinum að bráð. Mikið hefur verið um útköll hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í kvöld vegna sinuelda.

Sinubruni við Skautahöllina í Laugardal

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út fyrir skömmu til að slökkva sinuelda við Skautahöllina í Laugardal. Mikið hefur verið um sinuelda á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu vegna mikilla þurrka.

Afkoma lundans slök í Eyjum

Afkoma lundans hefur verið slök í Vestmannaeyjum undanfarin ár og finnst ekki tveggja ára fugl í eyjunum. Menn eru sammála um að ástand lundastofnsins sé alvarlegt en verið er að rannsaka hvers vegna stofninum hefur hrakað.

Rúmlega 750 manns á biðlista eftir augasteinaaðgerð

Rúmlega 750 manns bíða eftir að komast í augasteinaaðgerð á Landspítalanum. Eftirspurn eftir slíkum aðgerðum hefur margfaldast síðustu ár vegna hækkandi aldurs Íslendinga, segir settur yfirlæknir á augndeild spítalans.

Glitnismálinu vísað frá dómi

Glitnismálinu svokallaða var vísað frá dómi í Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag, þar sem dómari úrskurðaði að saksóknari efnahagsbrota gæti ekki gefið út ákærur.

Sífellt fleiri nýta sér hundahótel

Færst hefur í vöxt að dýraeigendur nýti sér þjónustu sérstakra dýrahótela yfir sumartímann. Hótelstýra á hundahóteli segir marga dýraeigendur hrædda við að skilja dýrin sín eftir á hóteli í fyrsta skiptið, þótt dýrin sjálf séu yfirleitt nokkuð sátt.

Skrumskæling að halda fram að húðkrabbamein sé ekki hættulegt

Framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands segir það skrumskælingu þegar því sé haldið fram að ekki sé hættulegt að fá húðkrabbamein, eins og haldið var fram í einu dagblaðanna í dag. Tæp tuttugu prósent karla sem fá sortuæxli látast af sjúkdómnum.

Ekki sannfærður um að Lúkas sé á lífi

Ekki eru allir sannfærðir um að hundurinn Lúkas sé enn á lífi þrátt fyrir sögusagnir þess efnis. Hilmar Trausti Harðarson, einn þeirra sem leitað hefur að Lúkasi undanfarna daga, segist efast um að það hafi verið Lúkas sem sást til ofan við Akureyri á mánudaginn. Hann segist ekki hafa hótað meintum banamanni Lúkasar barsmíðum.

Vonast til að geta flogið sem fyrst

Verið var að taka sigmann þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-Sif upp í þyrluna þegar hún missti afl og nauðlenti í sjónum. Annar flotbelgjanna sem áttu að halda henni á floti gaf sig sem varð til þess að þyrlunni hvolfdi. Áhöfnin telur sig ekki hafa verið í hættu og vonast til að geta flogið sem fyrst aftur.

Jón Ólafsson vill grænt samfélag í Ölfusi.

Ákvæði í samningi Jóns Ólafssonar athafnamanns og sonar hans við sveitarfélagið Ölfus útilokar mengandi starfsemi í grennd við stóra vatnsverksmiðju sem á að rísa að Hlíðarenda í Ölfusi. Jón vill vinna í sátt við sveitarfélagið þar sem hann sér fyrir sér grænt samfélag. Fyrirtækið hefur samið um dreifingu við Anheuser Busch, sem er það stærsta á sínu sviði í Bandaríkjunum. Anheuser Busch mun jafnframt eignast fimmtung í fyrirtækinu.

Sótti vélarvana bát

Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar sótti í dag vélarvana bát skammt út af Leiðarhöfn í Vopnafirði. Báturinn var að koma af hákarlaveiðum þegar hann bilaða. Einn maður var um borð en lítil hætta á ferðum.

Vesturlandsvegur opnaður á ný eftir umferðaróhapp

Búið er opna Vesturlandsveg aftur en honum var lokað tímabundið eftir að pallbíll með hestakerru valt laust eftir klukkan fimm í dag. Þrír voru í bílnum en þá sakaði ekki að sögn lögreglu.

Ný tækni frá 3X á Ísafirði tífaldar verðmæti fiskafurða

Hátæknifyrirtækið 3X á Ísafirði hefur þróað aðferðir til að tífalda verðmæti afurða með því að auka nýtingu hráefnis. Ný tækni frá fyrirtækinu gerir jafnframt mögulegt að mæta samdrætti í afla með því að þýða heilfrystan fisk og vinna afurðir úr honum. Tilraunir sem 3X hefur gert með fiskiðju Vísis hf. á Þingeyri hafa gengið framar vonum.

Björgunarsveit hjálpar manni úr sjálfheldu

Björgunarsveitin Víkverji var kölluð út síðdegis í dag til að sækja mann sem var í sjálfheldu í klettum í Þakgili í Höfðabrekkuafrétt. Hafði maðurinn klifrað upp til að aðstoða börn sín niður úr þessum sömu klettum en þegar hann ætlaði sjálfur niður hrundi aðeins undan fótum hans svo hann taldi vissara að kalla á aðstoð.

Lítil truflun á starfsemi Norðuráls vegna mótmæla

Engin röskun varð á starfsemi álvers Norðuráls á Grundartanga vegna mótmæla samtakanna Saving Iceland. Mótmælendur lokuðu annarri aðkeyrslunni að álverinu með því að hlekkja sig við veginn. Starfsmannastjóri álversins segir ólíklegt að lögð verði fram kæra vegna mótmælanna. Talsmaður Saving Iceland boðar frekari aðgerðir af hálfu samtakanna.

Sjá næstu 50 fréttir