Innlent

Aukið eftirlit skýrir fjölgun hraðakstursbrota

Hraðaksturbrotum hefur fjölgað um helming á síðustu tveimur árum.
Hraðaksturbrotum hefur fjölgað um helming á síðustu tveimur árum. MYND/VG

Aukið eftirlit lögreglu og fjölgun bíla á landinu skýrir að mestu leyti mikla fjölgun hraðakstursbrota á undanförnum árum að mati Kristínar B. Þorsteinsdóttur, fræðslufulltrúa hjá Umferðarstofu. Hún segir það einnig áhyggjuefni að ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna hafi aukist eins og raun ber vitni. Hraðakstursbrotum í júnímánuði hefur fjölgað um helming á síðustu tveimur árum.

„Það er eins og hraðakstur sé smitandi," sagði Kristín B. Þorsteinsdóttir, fræðslufulltrúi hjá Umferðarstofu, í samtali við Vísi. „Þetta lýsir líka ákveðinni firringu hjá sumum ökumönnum."

Alls voru 4.463 hraðakstursbrot skráð hjá lögreglunni í síðastliðnum júnímánuði samkvæmt afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra. Í sama mánuði í fyrra voru þau 3.513 talsins og árið 2005 voru skráð 2.536 hraðakstursbrot í júní.

Um 50 fleiri ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í júní miðað sama mánuð árið 2005. Þá voru að meðaltali tveir ökumenn teknir á hverjum degi í síðasta mánuði fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Að sögn Kristínar má skýra aukninguna að mestu leyti með fjölgun bíla á vegum landsins og auknu eftirliti lögreglu. Hún segir fjölgun brota þó áhyggjuefni enda sé hraðakstur og akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna helsta orsök alvarlegra umferðarslysa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×