Erlent

Ísraelar gera loft­á­rásir á Katar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Reykjarmökkurinn stígur upp af Kataran-hverfi í Dóha sem Ísraelar gerðu loftárás rétt í þessu.
Reykjarmökkurinn stígur upp af Kataran-hverfi í Dóha sem Ísraelar gerðu loftárás rétt í þessu.

Ísraelski herinn gerði loftárásir á Dóha, höfuðborg Katar, á öðrum tímanum í dag. Herinn segir árásirnar beinast að pólitískum leiðtogum Hamas sem hafa notað Dóha sem höfuðstöðvar utan Gasa um árabil.

Reuters hefur eftir vitnum að þó nokkrar sprengingar hafi heyrst á vettvangi. Jafnframt má sjá reykjarmökk stíga upp frá Katara-hverfi í höfuðborginni.

Ísraelski herinn hefur nú birt tilkynningu þar sem segir að loftárásirnar hafi beinst að leiðtogum Hamas-samtakanna. Þar segir að fyrir árásina hafi verið gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að almennir borgar myndu verða fyrir skaða, með notkun nákvæmra vopna og aukinna gagna.

Sautján íslendingar eru búsettir í Katar samkvæmt Þjóðskrá.

Ísraelski fréttamiðillinn Times of Israel segir að fréttastöðin Channel 12 hafi eftir ísraelskum embættismönnum að Bandaríkjamenn hafi verið látnir vita af árásinni og að þeir hafi gefið grænt ljós á hana.

Þá herma sömu miðlar að opinbert nafn loftárásanna sé „Atzeret HaDin“ sem má þýða gróflega sem Dómsdagur. Eitthvað virðist það þó vera á reiki því miðillinn i24News segir nafn aðgerðarinnar vera „Summit of fire“ sem mætti þýða sem „Eldstind“.

Í gær funduðu Khalil Al-Hayya, sem fer fyrir vopnahléssamninganefnd Hamas, með Sheikh Mohammed bin Abdulrahman Al-Thani, forsætisráðherra Katar, í Dóha. Heimildarmaður CNN, háttsettur ísraelskur embættismaður, segir Al-Hayya hafa verið meðal þeirra sem loftárásin beindist að.

Talsmaður katarska utanríkisráðuneytisins sagði árásina „heigulsverk“ og „glæpsamlega árás“ sem væri „blygðunarlaust brot á alþjóðalögum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×