Innlent

Mikill áhugi erlendis á íslensku orkuverkefni

Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar Nýorku.
Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar Nýorku. MYND/VG

Mikill áhugi er hjá erlendum aðilum að taka þátt í verkefni Íslenskrar Nýorku um notkun vetnis sem orkugjafa í stað olíu eða annarra kolefnisorkugjafa. Framkvæmdastjóri Íslenskrar Nýorku segir stefnu íslenskrar stjórnvalda varðandi vistvæna orku eiga mikinn þátt í þessum áhuga. Fjallað var var um verkefnið á vefsíðu bandarísku sjónvarpstöðvarinnar CNN.

„Við finnum fyrir miklum áhuga hjá erlendum aðilum," sagði Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar Nýorku, í samtali við Vísi. „Stefna stjórnvalda varðandi vistvæna orku hefur vakið athygli erlendis. Þá hafa þær tilraunir sem gerðar hafa verið hér landi varðandi vistvæna orku einnig vakið mikla athygli. Íslendingar njóta þess að hafa góðan aðgang að hreinni endurnýjanlegri orku."

Von er á tíu vetnisknúnum Toyota Prius bifreiðum hingað til lands næsta haust. Sá innflutningur tengist verkefninu SMART-H2 sem Nýorka og orkufyrirtækin standa að ásamt bandaríska orkufyrirtækinu Quantum Fuel Systems Technologies Worldwide. Bílarnir fara í notkun hjá bílaleigunni Hertz, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun.

Fyrr í þessum mánuði kom hingað til lands vetnisknúinn Benz bifreið frá bílaframleiðandanum DaimlerChrysler. Sá bíll er í sameiginlegri notku Orkuveitunnar og Landsvirkjunar. Fleiri verkefni eru einnig í vinnslu þar á meðal tilraunir með vetnisvélar á hafi úti.

Fjallað var um SMART-H2 verkefnið í viðskiptahluta vefsíðu bandarísku sjónvarpstöðvarinnar CNN í dag. Þar er haft eftir Alan P. Niedzwiecki, forstjóra orkufyrirtækisins Quanton Fuel Systems Technologies Worldwide, að fyrirtækið hafi mikla trú á verkefninu og samvinnunni við Íslendinga. „Við erum stoltir yfir því að geta tekið þátt í þessu verkefni," sagði Niedzwiecki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×