Innlent

Íslensk erfðagreining finnur fyrsta erfðabreytileika fótaóeirðar

Kári Stefánsson, forstjóri ÍS. Telur að uppgötvunin muni skila sér til sjúklinga í framtíðinni.
Kári Stefánsson, forstjóri ÍS. Telur að uppgötvunin muni skila sér til sjúklinga í framtíðinni. MYND/SK

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa í samstarfi við Emory háskólann í Atlanta í Bandaríkjunum fundið fyrsta erfðabreytileikann sem tengist fótaóeirð. Fótaóeirð er algengur sjúkdómur og talið að 5 til 10 af hverjum hundrað einstaklingum á Vesturlöndum þjáist af honum. Uppgötvunin mun hjálpa til við að greina sjúkdómin og bæta meðferð gegn honum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu.

Í tilkynningunni segir ennfremur að einangrun erfðabreytileikans renni sterkum stoðum undir þá kenningu að um eiginlegan sjúkdóm sé að ræða en skiptar skoðanir hafa verið um það hvort fótaóeirð sé raunverulegur sjúkdómur með líffræðilega orsök.

Helstu einkenni fótaóeirðar eru pirringur og óþægindi eða verkir í fótum. Oft fylgir sjúkdóminum þörf til að hreyfa fæturnar og koma einkennin frekar fram við slökun eða í hvíld. Sjúkdómurinn getur haft áhrif á svefn manna sem af honum þjást og ennfremur hafa verið sýnd fram á tengsl hans við þunglyndi og ýmiss hjartavandamál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×