Fleiri fréttir

Hafnarfjörður nýtur vinsælda

Hafnarfjörður virðist njóta sérstöðu hvað varðar fjölgun íbúa það sem af er þessu ári. Kemur í ljós samkvæmt tölum Hagstofu Íslands að tæplega 300 fleiri fluttu til bæjarins en frá á fyrrihluta ársins. Er það í hróplegu ósamræmi við nágrannabæjarfélagið í Garðabæ en þar fækkaði íbúum um 50.

Pólitísk ofstæki kostar stórfé

"Pólitískt ofstæki Gunnars hefur kostað Kópavogsbúa 50 til 60 milljónir," segir Flosi Eiríksson, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, í framhaldi af því að Reykjavíkurborg synjaði Kópavogsbæ að leggja vatnsleiðslu yfir sitt land. Gunnar I. Birgisson lýsti synjuninni sem árás Vallhallar á sjálfstæðismenn í Kópavogi.

Lyfjakostnaður lækkaði

Lyfjakostnaður á deildir Landspítala - háskólasjúkrahúss lækkaði um 1,6 % á fyrri helmingi þessa árs. S-merkti pakkinn hækkaði um 11,4%. Heildarlyfjakostnaður LSH hækkaði um 6,3% frá sama tímabili árið á undan. Þeta kemur fram meðal annars í rekstraruppgjöri LHS fyrir fyrri helming þessa árs.

Sparnaðurinn skilar sér

Skurðaðgerðum á Landspítala fjölgaði á fyrri helmingi þessa árs og meðallegutími styttist. Heildarkostnaður við lyf er í samræmi við áætlun. Launakostnaður hefur lækkað. Rekstur LSH eftir hálft ár sýnir 109,5 milljónir umfram fjárheimildir tímabilsins eða 0,8%. Þetta kemur fram í rekstraruppgjöri spítalans fyrir janúar-júní.

Deilur hamla uppbyggingu

Brýn þörf er á að byggja hverasvæðið í Haukadal upp, að sögn Árna hjá Umhverfisstofnun. Hann segir, að það hafi hins vegar ekki verið hægt til þessa vegna mótmæla hluta þeirra sem eiga land að svæðinu eða hluta af því.

Straumhvörf í meðferð blóðsjúkdóma

Stofnfrumur hafa verið græddar í sex sjúklinga á Landspítalanum frá áramótum en þá var byrjað að gera slíkar aðgerðir hér á landi. Fjórir þeirra hafa læknast af sjúkdómum sínum en aðferðin er talin valda straumhvörfum í meðferð illkynja blóðsjúkdóma. Næsta skref er að rækta stofnfrumur hér á landi úr naflastrengjum nýbura.

Íslendingar beygi sig

Norskur lagaprófessor og sérfræðingur í þjóðarrétti segir að Íslendingar eigi að beygja sig undir vilja Norðmanna í síldardeilunni við Svalbarða. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra býst ekki við neinum samningaviðræðum á næstunni og segir að staðan verði metin á ný ef Norðmenn skipta sér af veiðum íslenskra skipa.

Fjölskylda slapp úr eldi

Fjölskylda slapp naumlega út úr brennandi húsi við Brekkubæ í Árbæjarhverfi í Reykjavík á áttunda tímanum í morgun. Grunur leikur á að kviknað hafi í út frá gasgrilli en slíkir brunar verða æ tíðari.

Stærri flóð í Jöklu?

Staðkunnugir segja óhætt að búast við mun stærri flóðum í Jökulsá á Dal en því sem nú er afstaðið. Göngin sem grafin hafi verið til að veita ánni fram hjá Kárahnjúkastíflu séu einfaldlega of þröng. Engar tilraunir voru gerðar með líkan af göngunum við hönnun þeirra.

Norrænar reglur um matvælaöryggi

Norrænir ráðherrar samþykktu í dag reglur um matvælaöryggi en þeim er meðal annars ætlað að koma að gagni í baráttunni gegn offitu barna. Umhverfisráðherra segir aðrar norrænar þjóðir taka öðruvísi á málum, til dæmis með því að gera skólamáltíðir að skyldu.

Kópavogur greiðir meira

Kópavogsbær hefur greitt mun hærra verð fyrir vatn frá Orkuveitu Reykjavíkur undanfarin ár en önnur bæjarfélög. Það hefur kostað bæjarfélagið yfir sjötíu milljónir króna. Aðstoðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur undrast að Kópavogsbær hafi ekki reynt að ná verðinu niður.

Útiborð leyfð til tíu

Leyfi kaffihúsa til þess að þjóna til borðs utandyra verður hugsanlega framlengt til klukkan hálf tólf að kvöldi á sumum stöðum en endurskoðun vinnureglna stendur yfir. Útiborð hafa hingað til aðeins verið leyfð til klukkan tíu.

Viftur seljast og laugar loka

Sjaldan eða aldrei hafa rafmagnsviftur selst jafn vel í höfuðborginni og nú enda eru þær þarfaþing til að komast í gegnum heita, langa vinnudaga - þar sem jafnvel sundlaugum er lokað vegna veðurs. 

Methiti á Vestfjarðakjálkanum

Methiti mældist víða á Vestfjarðakjálkanum í gær og fór hitinn í 26 stig á Ströndum. Hlýrra var norðan en sunnan heiða. Veðurhorfurnar fram undan eru ágætar þrátt fyrir að hitabylgjan sé í rénun. Óvenju þung umferð miðað við árstíma.

Tekist á um fiskveiðistefnu

Ólík sjónarmið eru uppi um hvaða afleiðingar það hefði fyrir íslenskan sjávarútveg ef Íslendingar kysu að ganga í Evrópusambandið. Er því haldið fram að hið eina sem breyttist yrði það að lokaákvarðanir um heildarafla yrðu teknar í Brussel. Aðrir segja það ótryggt ef ákvörðunarvaldið yrði tekið frá okkur því ekki sé hægt að spá fyrir umbreytingar á fiskveiðistefnu ESB. </font /></b />

Getum lært mikið af Íslendingum

Sjávarútvegsráðherra Breta er staddur á Íslandi til að kynna sér fiskveiðistefnu Íslendinga. Sjávarútvegur Íslendinga er þriðjungur af sjávarútveginum í Bretlandi. Aflamagn Íslendinga er hins vegar þrefalt meira en Breta og verðmætin þrefalt meiri. </font /></b />

Drengur brenndist á fæti

Þriggja ára drengur brenndist illa á fæti þegar hann steig ofan í náttúrulegt hitaauga rétt við gufubaðshúsið á Laugarvatni á áttunda tímanum í gærkvöldi. Sjúkrabíll var þegar sendur eftir honum frá Selfossi og til öryggis var neyðarbíll sendur frá Reykjavík á móti sjúkrabílnum og flutti hann á Slysadeild Borgarspítalans.

Jökla enn einu sinni á kaf

Vatnsborð Jöklu steig hálfum metra meira í gærkvöldi en í fyrrakvöld og fór brúin enn einu sinni á kaf. Yfirborðið var aðeins hálfum metra lægra en það varð þegar flóðin náðu hámarki á fimmtudagskvöldið í síðustu viku og er búist við að að flóðin núna nái hámarki í kvöld eða annað kvöld. Mun þá enn reyna á styrkleika brúarinnar en verktakarnir eru farnir að aka um hana á milli flóða.

Féll af hestbaki

Varnarliðsmaður slasaðist þegar hann féll af hestbaki í grennd við Grindavík um áttaleytið í gærkvöldi. Hann var hálf meðvitundarlaus og blóð lak úr öðru eyra hans þegar sjúkraflutningamenn komu á vettvang.

Ólafar enn leitað

Ólöf A. Breiðfjörð Guðjónsdóttir, þrítug kona sem saknað hefur verið síðan á föstudag, er ekki enn komin fram. Það ræðst þegar á morguninn líður hvort formleg leit verður hafin að henni.

1400 hafa skráð sig í Idol

Fjórtán hundruð manns hafa nú þegar skráð sig í Idol-stjörnuleit Stöðvar 2 og er þátttakan þar með orðin meiri en í fyrra. Frestur til að skrá sig rennur út á miðnætti á sunnudag.

Drengur á hjóli lenti fyrir bíl

Tíu ára drengur slapp ótrúlega vel þegar hann lenti á reiðhjóli sínu í hörðum árekstri við bíl á mótum Hagasels og Heiðarsels um kvöldmatarleytið í gærkvöldi. Drengurinn skall á framrúðu bílsins með þeim þunga að hún brotnaði en drenginn sakaði ekki.

Vísitala neysluverðs ekkert hækkað

Vísitala neysluverðs hefur ekkert hækkað frá síðasta mánuði en ýmsar ytri aðstæður ýta þó verðbólgunni upp. Síðustu tólf mánuði hefur vísitalan hækkað um 3,7 prósent en þar af um aðeins 0,3 prósent síðustu þrjá mánuðina þannig að verulega hefur slegið á þensluna.

Enski boltinn á Bolungarvík

Útsendingar sjónvarpsstöðvarinnar Skjás eins munu nást í Bolungarvík í fyrri hluta október ef allt gengur að óskum að sögn Víðis Jónssonar, rafeindavirkja í bænum. Fréttavefur Bæjarins besta greinir frá þessu í dag.

Drengurinn útskrifaður

Drengurinn, sem brenndist illa á fæti þegar hann steig ofan í náttúrulegt hitaauga rétt við gufubaðshúsið á Laugarvatni á áttunda tímanum í gærkvöldi, hefur verið útskrifaður af slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Hann fékk viðeigandi umbúnað og verður undir eftirliti lækna.  

Rafmagnsviftur rjúka út

Rafmagnsviftur seljast eins og heitar lummur í sólinni. Hiti er víða yfir tuttugu stigum á landinu og nú er heitast í Húsafelli, tuttugu og fjögur stig. Til viðbótar við Húsafell er hiti yfir tuttugu stigum í Fljótshlíðinni, á Þingvöllum og í Reykjavík.

Ekki árás Valhallar

Oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn segir misskilning liggja í þeirri túlkun Gunnars I. Birgissonar, flokksfélaga síns í Kópavogi, að höfnun borgarráðs á vatnslögn Kópavogsbæjar um land Reykjavíkurborgar sé árás Valhallar á Sjálfstæðismenn í Kópavogi.

Niðurstaða EFTA kemur á óvart

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, segir að sú niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA, að samþykkja að Íbúðalánasjóður fái að hækka lánshlutfall vegna íbúðakaupa upp í 90 prósent, komi mjög á óvart og þurfi nánari skýringa við.

Yfirheyrslur halda áfram

Yfirheyrslum verður fram haldið í dag vegna atviks í Öxnadal í síðustu viku þar sem karlmaður á þrítugsaldri er grunaður um að hafa höfuðkúpubrotið mann og veitt honum fleiri áverka. Rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri gefur ekki upplýsingar um yfirheyrslur sem fram fóru í gær vegna rannsóknarhagsmuna.

Kennarar fá 90 þúsund á mánuði

Samninganefndir sveitarfélaga og grunnskólakennara ætla að taka upp nýjar aðferðir eftir árangurslausar viðræður frá því í vor. Komi til verkfalls tuttugasta september fá kennarar níutíu þúsund krónur á mánuði úr verkfallssjóði en sjóðurinn mun duga í tvo mánuði.

Sást síðast við Gullfoss

Komið er í ljós að Ólöf A. Breiðfjörð Guðjónsdóttir, sem lögreglan í Hafnarfirði lýsir eftir, sást síðast við Gullfoss um klukkan átta á föstudagskvöldið. Áður hafði hún fengið far með bíl frá Reykjavík og austur í Þrastarlund og þaðan hefur hún að öllum líkindum fengið far með öðrum bíl upp að Gullfossi. Lögreglan í Hafnarfirði óskar eftir að ná tali af honum og svo þeim sem hugsanlega hafa tekið hana upp í bíla sína síðar.

Byggðaþing að Hólum

Byggðaþing verður haldið að Hólum í Hjaltadal í Skagafirði dagana 28. og 29. ágúst næstkomandi á vegum samtakanna Landsbyggðin lifi. Á þinginu halda fyrirlestra fólk víða af landinu um málefni tengd byggð og byggðaþróun. 

Norðmönnum afhent mótmæli

Stefán Skjaldarson, sendiherra Íslands í Noregi, afhenti í dag norskum stjórnvöldum ítrekuð mótmæli íslenskra stjórnvalda við einhliða kvótaúthlutun Norðmanna á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum við Svalbarða. Það standist ekki fjölþjóðlegan samning um Svalbarða og feli í sér brot á hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og brot á almennum reglum þjóðarréttar.

Mismunandi afkoma kúabænda

Mismunur á góðum bændum og búskussum kemur glöggt í ljós þegar skyggnst er í búreikninga kúabúa sem Bændasamtökin taka saman. Þar kemur í ljós að afkoma þerra kúabænda sem leggja sig fram um að fá sem mesta mjólk úr hverri kú er mun betri en þeirra sem fá að meðaltali minna úr hverri kú.

Nýr framkvæmdastjóri ráðinn

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra hefur skipað Magnús Skúlason, deildarstjóra í heilbrigðisráðuneytinu, framkvæmdastjóra hinnar nýju Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sem mun þjóna um sautján þúsund manns. 

Skjálftahrina austur af Grímsey

Skjálftahrina er í hafinu austur af Grímsey. Milli tuttugu og þrjátíu skjálftar hafa komið fram á mælum síðan í gær. Sá stærsti var klukkan að ganga þrjú í dag og var hann 2,9 á Richter. Skjálftahrinur eru algengar á þessum slóðum.

Íslensk sumargotssíld fyrir norðan

Komið er á daginn að síldin, sem tók upp á því um síðustu helgi að vaða í haffletinum við síldarminjasafnið í Siglufirði, var íslensk sumargotssíld en ekki norsk-íslensk síld.

Bæjarráð Kópavogs mótmælir

Bæjarráð Kópavog mótmælir þeirri skoðun sem kemur fram í samþykkt Borgarráðs Reykjavíkur frá 10. ágúst um að eignarhald á Vatnsendakrikum sé umdeilt. Þetta kemur fram í ályktun fundar ráðsins frá því fyrr í dag. 

Drengur brenndist í Laugarvatni

Engar merkingar hafa verið við Laugarvatn til að vara fólk við hitalaugum sem geta myndast fyrirvaralaust. Ungur drengur brenndist á fæti þegar hann var að vaða í fjöruborðinu þar í gærkvöldi.

Sumarblíða en engin met

Einmuna veðurblíða var á Suður- og Austurlandi í dag. Íbúar höfuðborgarinnar gerðu sitt besta til að sinna daglegu amstri utan dyra, hvort sem um var að ræða tómstundir, vinnu eða líkamsrækt. Engin hitamet voru slegin í dag en heitast var á Þingvöllum þar sem hitinn fór upp í 26,2 stig um miðjan dag.

Kröfur kennara sanngjarnar?

Sveitarfélögin búa sig undir kennaraverkfall í haust. Deilan snýst ekki um það hvort félögin hafi efni á að greiða kennurum hærri laun, heldur hvort kröfur kennara séu sanngjarnar.

Of blint fyrir blindflug

Kvöldfluginu frá Reykjavík til Egilsstaða síðasta sunnudag var snúið við skammt frá áfangastað vegna þoku sem myndaðist við upphaf hitabylgjunnar sem þá reið yfir. Þar er þó fullkominn blindflugsbúnaður, enda alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum.

Flugu lágt yfir miðbænum

Nokkuð margir litu upp frá ísnum sínum á Lækjartorgi um klukkan hálf þrjú í gær þegar herþyrla varnarliðsins flaug lágflug yfir miðbæ Reykjavíkur. Þyrlan var svo enn á ferð lágt yfir borginni upp úr klukkan fjögur síðdegis.

Beðið eftir bæjarstjóra

Umfjöllun um vasapeningamál hælisleitenda hér á landi sem bíða úrskurðar Útlendingastofnunar hefur verið frestað hjá Reykjanesbæ þar til Árni Sigfússon bæjarstjóri snýr aftur úr sumarleyfi undir lok mánaðarins.

Einungis ein tilnefning borist

Einungis ein tilnefning hefur borist fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar um fjölskylduvænt fyrirtæki í bænum. Frestur til að skila tilnefningum hefur verið framlengdur til 20. ágúst næstkomandi.

Sjá næstu 50 fréttir