Innlent

Íslendingar beygi sig

Norskur lagaprófessor og sérfræðingur í þjóðarrétti segir að Íslendingar eigi að beygja sig undir vilja Norðmanna í síldardeilunni við Svalbarða. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra býst ekki við neinum samningaviðræðum á næstunni og segir að staðan verði metin á ný ef Norðmenn skipta sér af veiðum íslenskra skipa. Lagaprófessorinn og þjóðréttarfræðingurinn Geir Ulfstein segir í viðtali við Aftenposten í dag að Íslendingar og Norðmenn hafi báðir eitthvað til síns mál í þessari deilu, en segir engu að síðar að Íslendingar ættu að sætta sig við þá kvóta sem Norðmenn úthluta vegna síldveiða við Svalbarða. Hann minnir á mikilvægi svæðisins fyrir síldarstofninn, auk þess sem það sé uppvaxtarsvæði þorsks. Síldarstofnin hafi hrunið á sjöunda áratugnum en náðst hafi að byggja hann upp aftur og mikilvægt sé að halda honum sterkum. Íslendingar viðurkenna hins vegar ekki norska kvótann og ætla ekki að hætta veiðum þegar 80 þúsunda tonna kvóti klárast nú um helgina. Ulfstein tekur undir með Íslendingum að Svalbarðasamkomulagið gildi einnig á þessu væðisvæði, en Norðmenn eru á annarri skoðun og úthlut kvótum, byggðum á veiðireynslu þjóða. Í Aftenposten kemur fram að þessi deila sé áratugargömul og eigi rætur sínar að rekja til ofveiði á Íslandsmiðum þannig að Íslendingar hafi þurft að leita á önnur mið. Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra segir engar samningaviðræður fyrirhugaðar. Það komi bara í ljós hvað gerist á Svalbarðasvæðinu, þ.e. hvort Norðmenn láti íslensk skip, sem þar veiði áfram, afskiptalaus eður ei. Ef ekki, þá verði að skoða stöðuna sem upp kæmi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×