Innlent

Methiti á Vestfjarðakjálkanum

Methiti mældist víða á Vestfjarðakjálkanum í gær og fór hitinn í 26 stig á Ströndum. Hlýrra var norðan en sunnan heiða. Veðurhorfurnar fram undan eru ágætar þrátt fyrir að hitabylgjan sé í rénun. Óvenju þung umferð miðað við árstíma. Methiti mældist víða á Vestfjarðakjálkanum í gær þegar hitabylgjan lét til sín taka. 26 stiga hiti mældist á Litlu-Ávík á Ströndum og 24,3 stiga hiti í Bolungarvík, að sögn Þorsteins V. Jónssonar veðurfræðings. Hlýrra var fyrir norðan en sunnan heiða að sögn Þorsteins og fór hitinn hæst í 28,5 stig á Reykjum í Fnjóskadal. Hlýtt var einnig í veðri á Akureyri, þar sem hitinn komst hæst í 24 stig í gær. Þoka gerði vart við sig suðvestanlands í gær, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu, og undir kvöld voru þokubakkar einnig farnir að láta sjá sig fyrir utan Austfirði. Horfur eru á ágætu veðri fram undan þrátt fyrir að hitabylgjan sem leikið hefur um landsmenn síðustu dagana sé í rénun, að sögn Sigurðar Þ. Ragnarssonar veðurfræðings. Sigurður á enn von á góðviðri í dag en býst við að á sunnudag taki venjulegra veður við. Horfurnar séu þó í sjálfu sér mjög góðar, hægviðri eða hafgola og víða bjart með köflum. Besta helgarveðrinu býst Sigurður við austan- og suðaustantil á landinu. Ekki er búist við meiriháttar úrkomu í næstu viku. "Búast má við stöku síðdegisskúrum á sunnanverðu landinu á sunnudag og hugsanlega lítilsháttar úrkomu sunnan- og vestantil á mánudag," segir Sigurður. "Þetta verður þó minniháttar úrkoma ef fer sem horfir." Óvenju þung umferð var í báðar áttir frá Reykjavík að sögn lögreglunnar í Borgarnesi og á Selfossi. "Umferðin dettur venjulega niður strax eftir verslunarmannahelgina," segir Grímur Hergeirsson, varðstjóri á Selfossi. "Í ár virðast menn hins vegar vilja bæta einni ferðahelgi við vegna góða veðursins."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×