Innlent

Beðið eftir bæjarstjóra

Umfjöllun um vasapeningamál hælisleitenda hér á landi sem bíða úrskurðar Útlendingastofnunar hefur verið frestað hjá Reykjanesbæ þar til Árni Sigfússon bæjarstjóri snýr aftur úr sumarleyfi undir lok mánaðarins. Hjörtur Zakaríasson, bæjarritari og staðgengill bæjarstjóra, sagðist hafa fundað með Hjördísi Árnadóttur, félagsmálastjóra bæjarins, síðasta mánudag og þau orðið ásátt um að hún færi yfir málið með Árna. Reykjanesbær tók við umsjá hælisleitenda um síðustu áramót og lét þá af greiðslu vasapeninga en Rauði krossinn hafði haft þann hátt á meðan umsjá fólksins var á hans könnu. Fram hefur komið að Rauði krossinn er þeirrar skoðunar að greiða beri slíka vasapeninga. Þá er einnig kveðið á um slíkar greiðslur í samningi bæjarins við Útlendingastofnun þótt rætt sé um nánari útfærslu á reglum um greiðslurnar í samráði bæjarfélagsins og stofnunarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×