Innlent

Sparnaðurinn skilar sér

Skurðaðgerðum á Landspítala fjölgaði á fyrri helmingi þessa árs og meðallegutími styttist. Heildarkostnaður við lyf er í samræmi við áætlun. Launakostnaður hefur lækkað. Rekstur LSH eftir hálft ár sýnir 109,5 milljónir umfram fjárheimildir tímabilsins eða 0,8%. Þetta kemur fram í rekstraruppgjöri spítalans fyrir janúar-júní, sem birt var í gær. "Ég er mjög ánægður með þetta," sagði Magnús Pétursson, forstjóri LSH. "Við erum að auka starfsemi spítalans með sama, jafnvel minna fjármagni, en á síðasta ári. Við höfum rekið þennan spítala undanfarin fimm ár með sömu raunkrónum. Nú er að skila sér þetta puð sem menn hafa verið í við að halda aftur af útgjöldum." Á síðustu tólf mánuðum hefur dagvinnustöðugildum á spítalanum fækkað um 126 og vöktum verið fækkað. "Launatölur spítalans eru nú innan við hækkanir sem almennt gerast," sagði Magnús enn fremur. "Lyfjalistar, lyfjaútboð og aðhald á nýjum lyfjum eru aðgerðir sem hemja útgjöld. Þetta er að skila fínum árangri og ég er mjög ánægður með þessa útkomu." Samkvæmt rekstraruppgjörinu fjölgaði skurðaðgerðum á LSH um 3,4% frá fyrra ári að meðtöldum dagdeildaraðgerðum á augum. Sú fjölgun skilar sér beint í fækkun á biðlistum eftir þjónustu spítalans. Hins vegar varð fækkun í hjartaþræðingum, kransæðavíkkunum og gangráðsígræðslum, en fjölgun í öðrum þáttum hjartalækninga. Þar eru biðlistar nánast búnir. Legudögum fækkaði um 7,0% og meðallegutími styttist úr 8,8 dögum í 8,1. Komum á göngudeildir fjölgaði um 9,3% milli ára, en fækkaði um 2,1% á dagdeildum. Aðeins tvö svið á spítalanum eru með 4% umfram áætlaðan kostnað. Það eru lyflækningasvið I með 6,9% og Rannsóknarstofnun LSH með 4,7% umfram áætlun. Sérstök úttekt var gerð á greiðslum launatengdra gjalda 2001-2004. Um er að ræða hækkuð mótframgjöld í séreignarlífeyrissjóði og aukna þátttöku starfsmana í þeim, svo og hækkun tryggingargjalds. Þessi gjöld hafa aukist jafnt og þétt á milli ára úr 17,32% í 19,41%. Þetta þýðir að spítalinn verður fyrir 340 milljóna króna viðbótarkostnaði, "sem ekki hefur verið viðurkennt af stjórnvöldum," eins og segir í greinargerð með rekstraruppgjörinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×