Innlent

Tekist á um fiskveiðistefnu

"Aðild Íslands að Evrópusambandinu myndi engu breyta varðandi íslenska sjávarútveginn og aðstæður á Íslandsmiðum," segir Þórólfur Matthíasson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. "Ákveðin prinsipp eru í gangi sem kallast hlutfallslegur stöðugleiki og miða að því að núverandi aðstæðum verði ekki breytt. Íslendingar hafa einir veiðiréttindi að Íslandsmiðum og ætti það ekki að breytast, " segir Þórólfur. Eiríkur Bergmann Einarsson, sérfræðingur í Evrópumálum og varaþingmaður Samfylkingarinnar, tekur undir þetta sjónarmið. "Hið eina sem myndi breytast er það að lokaákvörðun um heildarafla yrði tekin af sjávarútvegsráðherrum aðildarríkja ESB í Brussel. Ákvörðunin yrði þó ávallt samhljóma tillögum Íslendinga um heildarafla sem miðuðust jafnframt við viðmiðanir Hafrannsóknastofnunarinnar," segir Eiríkur. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, heldur því hins vegar fram að fullkomið sjálfsforræði sé grundvöllur fyrir því að gengi sjávarútvegsins á Íslandi verði áfram jafn gott. Missum ákvörðunarvaldið Ef við göngumst undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB missum við ákvörðunarvaldið yfir fiskimiðunum. Því hefur verið haldið fram að við munum í sjálfu sér ráða þessum málum áfram, en það er ekki satt. Við höfum þurft að eiga við ESB árum saman, til að mynda vegna samninga um deilistofnana sem framkvæmdastjórn ESB fer með, og sú reynsla sýnir að veruleikinn yrði allt annar ef við værum innan sambandsins því óskyldir hagsmunir varðandi önnur Evrópumál myndu spila þar inn í," segir Friðrik. "Nú er staðan sú að skipting fiskistofnanna milli einstakra aðildarríkja byggir á hugmyndinni um hlutfallslegan stöðugleika. Það er þó engin vísbending um það hvernig þessu verður háttað í framtíðinni. Ef aðilar innan ESB færu fram á breytingar, til að mynda Spánverjar sem hafa sótt mjög hart í þá veru, er engin trygging fyrir því að fyrirkomulaginu verði ekki breytt," segir hann. Þórólfur mótmælir þessu og segir að Íslendingar og Norðmenn hefðu mjög mikið að sækja ef þjóðirnar tvær ákvæðu að sækja um aðild. "Það stendur ekkert í vegi fyrir því að Íslendingar og Norðmenn gætu haft veruleg áhrif á hvaða breytingar verða gerðar á sjávarútvegsstefnu ESB, ekki síst vegna þess að þá myndi landaður afli á ESB-svæðinu tvöfaldast. ESB yrði þar með ein stærsta fiskveiðiþjóð veraldar," segir Þórólfur. Breytingar gerðar á landbúnaðarstefnu "Sem dæmi um þau áhrif sem hægt er að hafa innan sambandsins má benda á þær miklu breytingar sem gerðar voru á landbúnaðarstefnu ESB þegar Finnar og Svíar gengu í það. Þeir höfðu mikilla hagsmuna að gæta í landbúnaði og komu því til leiðar að til varð hugtakið norrænn landbúnaður, sem meðal annars verndaði hagsmuni finnskra skógarbænda," segir Þórólfur. Eiríkur tekur undir þessa samlíkingu og bendir á að áður en Finnar og Svíar hófu aðildarviðræður hafi því verið haldið fram að það yrði útilokað fyrir þá að ná fram breytingu á landbúnaðarstefnunni. Þórólfur segir jafnframt að ekki megi alhæfa neitt um það hvort samningar um fiskveiðistefnu muni takast eða ekki ef farið verði í aðildarviðræður. "Það er ekki hægt að sjá fyrir niðurstöður úr aðildarviðræðum. Mikilvægt er að þær hafi verið undirbúnar vel og farið sé í viðræður af skynsemi. Þetta eru alltaf samningar og menn þurfa að vera tilbúnir til að gefa eftir í einu máli og sækja á í öðru," segir Þórólfur. Hann bendir á að Norðmenn hafi í tvígang sótt um aðild að ESB. "Samningar um fiskveiðar reyndust erfiðir og flóknir í bæði skiptin. Norsk stjórnvöld lögðu upp með kröfugerð sem miðaði í raun að varanlegri undanþágu frá sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB á þeim tíma. Niðurstaða viðræðnanna sýndi að nánast ómögulegt er að fá algjöra undanþágu frá sameiginlegri stefnu ESB," segir Þórólfur. Hann segir að pólitísk rök hnígi að því að Ísland komi sínum málum best með því að vinna að svæðisbundnu fiskveiðistjórnunarkerfi fyrir Norðaustur-Atlantshaf. "Það er mun líklegra að Íslendingum takist að semja um svæðisbundna stjórnun fiskveiða en umfangsmiklar og varanlegar undanþágur," segir hann. Ókostirnir vega þyngra en kostirnir Friðrik heldur því hins vegar fram að það hefði fleiri ókosti en kosti í för með sér ef Íslendingar gengjust undir sameiginlega fiskveiðistefnu ESB. "Hugsanlegt er að hægt verði að semja um að við héldum forræðinu á staðbundnu fiskistofnunum innan lögsögunnar, þorsknum, ýsunni og steinbítnum. Hins vegar kemur um þriðjungur af tekjum sjávarútvegsins frá deilistofnum innan og utan lögsögunnar, loðnu, kolmunna, úthafs- og djúpkarfa og norsk-íslensku síldinni. Þeir færu allir undir forræði ESB og þegar að því kæmi að semja þyrfti um þessa stofna skipti máli hvort við værum með forræði eða ekki. Sem dæmi erum við með 20 prósent af kolmunnaaflanum en ESB vildi helst að við værum með tvö prósent. Það eru því ekki einungis stofnarnir innan lögsögunnar sem máli skipta," segir Friðrik. Hann bendir jafnframt á eignarhald á sjávarútvegsfyrirtækjum. Á Íslandi gilda þau lög að erlendir eignaraðilar megi aldrei eiga meira en 49 prósenta eignarhlut og aldrei ráðandi hlut. "Ef við gengjum í ESB gætum við ekki takmarkað eignarhaldið þrátt fyrir að Bretar hafi komist upp með ákveðna bindingu við landið. Það er alveg klárt að ef eignarhaldið er innlent að meirihluta verður meira af arðinum sem fæst úr auðlindinni eftir hér á landi. Það nýtist Íslendingum einfaldlega betur ef reglur um eignarhald eru eins og þær eru nú," segir Friðrik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×