Fleiri fréttir

Jólatré sótt heim

Íbúum Reykjavíkurborgar sem þurfa að losa sig við jólatré eftir þrettándann er boðið upp á að láta sækja þau heim til sín dagana 8. til 12. janúar.

Leitarsvæðið stækkað

Yfirvöld á Indónesíu hafa stækkað leitarsvæðið í kringum Sulawesi-eyju þar sem leitað er að flugvél sem hvarf í óveðri á nýársdag. Hundrað og tólf manns voru um borð í flugvélinni þegar hún hvarf. Neyðarkall barst frá vélinni en engar vísbendingar eru um að vélarbilun hafi orðið.

Mér var kalt, hikk

Bæjarfulltrúi í Nuuk á Grænlandi hefur verið úrskurðuð óverðug þess að sitja í bæjarstjórninni eftir að hún braust inn í hótel í bænum Sisiamiut, í janúar á síðasta ári. Jensína Berthelsen sagði sér til varnar, fyrir rétti, að henni hefði verið kalt, og að hótelið hefði verið læst. Hún hefði því ekki átt annarra kosta völ en að brjótast inn.

Ný stjórn Fjármálaeftirlitsins tók við um áramót

Viðskiptaráðherra hefur skipað nýja stjórn Fjármálaeftirlitsins til næstu fjögurra ára. Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu að í aðalstjórn sitji Lárus Finnbogason, löggiltur endurskoðandi, sem er formaður stjórnar, Sigríður Thorlacius, lögfræðingur, varaformaður stjórnar, og Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri.

Fjórar þrettándabrennur á höfuðborgarsvæðinu

Fjórar þrettándabrennur verða á höfuðborgarsvæðinu á morgun en þrettándinn markar lok jólanna. Líkt og á gamlárskvöld verður brenna á Ægissíðu í Reykjavík og hefst hún kl. 16.40. Auk þess verður brenna á Valhúsahúsahæð á Seltjarnarnesi klukkan 18.

Vegabréfsumsóknir lama ræðisskrifstofuna

Rúmenska ræðisskrifstofan í Chisinau, höfuðborg Moldavíu, hefur ekki undan að fara yfir umsóknir um vegabréfsáritanir til handa Möldövum. Við inngönguna í Evrópusambandið þurfti Rúmenía að setja nýjar reglur um áritanir þannig að nágrannarnir Moldavar komast nú ekki fyrirhafnarlaust á milli.

Rúmið hrundi í miðri fæðingu

Þriggja barna móðir hefur lagt fram kvörtun til fæðingardeildar í Leeds eftir að rúm sem hún lá í hrundi í miðjum klíðum - í miðjum hríðum. Linda Makin segir að hún, barnið hennar nýfætt og ljósmóðirin hafi legið "í kássu" á gólfinu eftir að rúmið brast.

Ekið á gangandi vegfarendur

Ekið var á mann og son hans fæddan 2005 við Garðatorg í Garðabæ um sjö-leytið í kvöld. Báðir voru fluttir á slysadeild en meiðsl þeirra voru ekki alvarleg. Þá var ekið á gangandi vegfaranda á Nýbýlavegi um níu í kvöld og er ekki vitað um meiðsl hans að svo stöddu. Varðstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir talsvert hafa verið um minniháttar umferðaróhöpp í dag.

Peretz hugsanlega á förum

Ísraelsk sjónvarpsstöð hefur eftir heimildum á skrifstofu forsætisráðherrans Olmerts að Amir Peretz, varnarmálaráðherra Ísraels verði senn færður til í starfi og ef hann þiggi ekki annað ráðherraembætti þá verði hann rekinn. Skrifstofa Olmerts segir sögusagnirnar hins vegar tilhæfulausar.

Löng bið í Keflavík

Farþegar sem áttu að leggja af stað til Lundúna með flugvél British Airways upp úr hádegi bíða enn á Keflavíkurflugvelli. Að sögn tveggja stúlkna sem bíða á flugvellinum voru farþegarnir komnir út í vél upp úr hádegi þegar flugmaður sagði þeim að loftþrýstingssprungur væru í framrúðu vélarinnar og bíða þyrfti varahluta. Ekki náðist í British Airways.

Olmert biðst afsökunar á drápunum

Forsætisráðherra Ísraels, Ehud Olmert, baðst í kvöld afsökunar á því að fjórir Palestínumenn létust í hernaðaraðgerð Ísraelsmanna í Ramallah á Vesturbakkanum í dag. Hermenn á skriðdrekum og jarðýtum réðust inn í bæinn til þess að handtaka grunaða hryðjuverkamenn. Fjórir létust og 20 slösuðust en hermennirnir handtóku fjóra.

Demókratar við völd eftir 12 ár

Demókratar tóku formlega völdin í Washington þegar meirihluti þeirra í báðum deildum Bandaríkjaþings sór embættiseið í dag. Nancy Pelosi varð fyrsta konan sem kjörin er forseti neðri deildarinnar, líkt og búist hafði verið við. Einnig var brotið blað í sögu þingsins þegar nýr þingmaður sór í fyrsta skipti embættiseið meö hönd á kóraninum en ekki biblíunni.

Refsiábyrgð stjórnenda í samráðsmálum undirstrikuð

Fyrirtæki verða beitt stjórnvaldssektum en starfsmenn þeirra sæta refsiábyrgð ef upp kemst um ólöglegt samráð fyrirtækja, samkvæmt tillögum nefndar á vegum forsætisráðherra. Þannig er refsiábyrgð stjórnenda undirstrikuð. Þá verður rannsóknarferli slíkra mála einfaldað frá því sem nú er.

Milljón króna kennderí

Ætla má að kostnaður við leit að manni í Hafnarfirði, sem skilaði sér ekki heim eftir að hafa farið út að viðra hundana sína, sé ekki undir einni milljón króna. Maðurinn fannst ölvaður í heimahúsi eftir um fimm klukkustunda leit.

Um 50 flugumferðarstjórar ráðnir í dag

Um fimmtíu flugumferðarstjórar, sem neitað höfðu að ráða sig hjá Flugstoðum ohf., óskuðu í dag eftir starfi þar. Þeir fyrstu mættu á vakt strax í morgun og viðbúnaðaráætlun var aflýst um hádegi. Flugumferðarstjórn er því komin í eðlilegt horf. Félag íslenskra flugumferðarstjóra og Flugstoðir náðu í gær samkomulagi eftir margra vikna deilur en hið opinbera hlutafélag, Flugstoðir, tóku við af Flugmálastjórn um áramótin. Sex flugumferðarstjórar voru komnir á biðlaun núna í janúar, þar á meðal formaður Félags flugumferðarstjóra, en að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa Flugmálastjórnar, mun það ekki valda vandkvæðum við ráðningar þeirra. Hún segir viðbúnaðaráætlunina hafa gengið vel við tilstuðlan þeirra starfsmanna sem stóðu vaktina.

Vildu ekki Kaldalóns í kerskála Alcans

Afkomendur Sigvalda Kaldalóns bönnuðu að jólalag hans, Aðfangadagskvöld jóla, yrði flutt í kerskála Alcan í áramótaauglýsingu fyrirtækisins. Þeir segja hann hafa verið einlægan náttúruverndarsinna. Málið þykir sýna hve mikill hiti er hlaupinn í andstöðu við stóriðjustefnu og stækkun álversins.

Fagleg íslensk leyniþjónusta

Samkvæmt leyniskjölum, sem Stöð 2 fékk aðgang að í krafti upplýsingalaga, virðist náið samstarf hafa verið á milli íslensku öryggisþjónustunnar og leyniþjónustu bandaríska flotans undir lok sjöunda áratugarins, þegar fullvíst er talið að víðtækar fjarskiptanjósnir hafi verið stundaðar í sovéska sendiráðinu. Í einu þessara skjala hæla bandarískir leyniþjónustumenn íslenskum kollegum sínum í hástert fyrir fagmennsku.

Á gjörgæslu eftir bílveltu

Rússinn sem slasaðist í bílveltu í Kjósarskarði í dag liggur nú á gjörgæsludeild í Fossvogi. Hann er rifbeinsbrotinn og lemstraður en mun ekki vera í lífshættu. Fjórir samlandar hans sem voru með honum í bílnum eru minna slasaðir og fengu að fara heim eftir stutta heimsókn á slysadeild.

Varað við óveðri undir Hafnarfjalli

Vegagerðin varar við óveðri undir Hafnarfjalli. Víðast hvar á þjóðvegum er hálka eða hálkublettir og snjókoma og éljagangur víða á fjallvegum.

Egyptar mótmæla árásum á Ramallah

Forseti Egyptalands mótmælti hernaðaraðgerðum Ísraela í palestínska bænum Ramallah á einkafundi sínum með Ehud Olmert , forsætisráðherra Ísraels í dag. Fundur Olmerts og Hosni Mubaraks í egypska strandbænum Sharm el-Sheikh er tilraun til að stilla til friðar á svæðinu. Árásir Ísraela á Ramallah eru frekar sjaldgæfar.

Spænska lögreglan finnur 100 kíló af sprengiefni

Spænska lögreglan greindi frá því dag að hún hefði fundið 100 kíló af sprengiefni í baskneska bænum Atxondo. Telur hún að ETA, Aðskilnaðarhreyfing Baska, hafi átt sprengiefnið en það fannst í gámi í bænum.

Átök í Ramallah í dag

Að minnsta kosti fjórir Paletínumenn létust og 20 særðust í aðgerðum Ísraelshers í Ramallah á Vesturbakkanum í dag. Markmið hersins var að sögn ísraelskra yfirvalda að handtaka eftirlýsta Palestínumenn en í brýnu sló á milli þeirra og herskárra Palestínumanna í miðborg Ramallah.

Offitufaraldurinn er kominn til Noregs

Eftir að sjö mismunandi rannsóknir í Noregi hafa verið bornar saman í einni risarannsókn kemur í ljós að fimmti hver Norðmaður er of feitur. Í rannsókninni voru yfir 300.000 þátttakendur á aldrinum 20 -75 ára.

Lífslíkur Íslendinga aukast

Meðalævilengd nýfæddrar stúlku er nú tæp 83 ár og drengs nærri 79 ár og hefur aukist um 0,7 ár á tveimur árum. Þetta leiða nýir útreikningar Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga á lífslíkum Íslendinga í ljós en útreikningarnir miðast við reynslu áranna 2001 til 2005.

Skipta fasteignagjöldum á milli sín

Fyrirhugað álver Norðuráls í Helguvík verður að öllum líkum staðsett innan landamarka sveitafélagsins Garðs. Gert er ráð fyrir að ker og steypuskálar verði á lóð sem tilheyrði áður varnarsvæði í eigu ríkisins.

Demókratar taka við stjórnvelinum á Capitol-hæð

Nýkjörið Bandaríkjaþing kemur saman í fyrsta sinn í dag og þá verða það demókratar sem stjórna bæði fulltrúadeildinni og öldungadeildinni. Eftir þingkosningar í nóvemer er Demókrataflokkurinn í fyrsta sinn í tólf ár með meirihluta í báðum deildum og ljóst þykir að erfiðara verður fyrir stjórn Bush Bandaríkjaforseta að koma málum í gegnum þingið.

Bílum um Hvalfjarðargöng fjölgar um 9% milli ára

Á nýliðnu ári fóru tæplega 1,9 milljón ökutæki um Hvalfjarðargöngin en það er rúmlega 9 prósenta aukning frá árinu 2005. Frá þessu er greint á fréttavef Skessuhorns. Að meðaltali fóru um fimm þúsund ökutæki um göngin á hverjum sólarhring á síðasta ári.

Varað við frekari sprengjutilræðum í Bangkok

Yfirvöld í Taílandi hafa varað almenning við frekari sprengjuárásum líkum þeim sem gerðar voru á gamlárskvöld í höfuðborginni Bangkok. Þá sprungu átta sprengjur á stuttum tíma í höfuðborginni með þeim afleiðingum að þrír létust og að minnsta kosti 30 særðust.

Einn alvarlega slasaður eftir bílveltu

Einn er alvarlega slasaður eftir bílveltu á Kjósarskarðsvegi sem varð rétt fyrir klukkan tvö. Verið er að flytja hann og fjóra aðra á slysadeild Landspítala - háskólasjúkrahús en meiðsl hinna eru ekki talin alvarleg.

Spurt um fjárhagsleg samskipti borgar og Byrgisins

Samfylkingin óskaði eftir upplýsingum um fjárhagsleg samskipti borgarinnar og Byrgisins á borgarráðsfundi í morgun, meðal annars hvernig einstaklingar sem þar hafa dvalið hafa verið studdir.

Alvarlegt bílslys á Kjósarskarðsvegi

Lögregla og sjúkralið eru nú á leið á Kjósarskarðsveg þar sem alvarlegt bílslys varð fyrir skömmu. Ekki er vitað á þessari stundu hvað gerðist en Kjósarskarðsvegur er leiðin á milli Þingvallavegar og niður í Hvalfjörð.

Hátt í sextíu látnir úr kulda í Bangladess

Hátt í sextíu manns dáið úr kulda í norðurhluta Bangladess í vikunni, þar af um 40 í gær. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir yfirvöldum á svæðinu. Flestir hinna látnu eru betlarar og heimilislausir.

Raðumferðarlagabrjótur gripinn á Reykjanesbraut

Lögreglan höfuðborgarsvæðisins hafði afskipti af raðumferðarlagabrjóti á Reykjanesbraut í Kópavogi í gærkvöld. Að sögn lögreglu mældist hann á 139 kílómetra hraða á bíl sínum þar sem hámarkshraði er 70. Maðurinn hefur alloft áður gerst sekur um hraðakstur.

Farþegaflugvél enn ófundin í Indónesíu

Enn hefur hvorki fundist tangur né tetur af indónesísku farþegaflugvélinni sem saknað hefur verið frá því á nýársdag. Í morgun var greint frá því að ekkert neyðarkall hefði borist frá vélinni og engar vísbendingar væru um að vélarbilun hefði orðið.

Umsókn um aðild að ESB gæti skapað aga í efnahagsmálum

Framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins telur að það geti komið nauðsynlegum aga á efnahagsmál þjóðarinnar, að fara í umsóknarferli að Evrópusambandinu. Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, telur hagsveifluna hér á allt öðru róli en í nágrannalöndunum og þess vegna sé ekki hagstætt að hefja umsóknarferli nú.

Hestamenn uggandi vegna tíðra slysa

Hestamenn eru uggandi yfir alvarlegum og tíðum slysum á hestamönnum, nú síðast um helgina. Hópur lækna, lögfræðinga og hestamanna verður settur saman til að rýna í orsakir slysanna.

Þeir síðustu verða fyrstir

Þorsteinn Vilhelmsson athafnamaður veitti Lindaskóla í Kópavogi tveggja milljón króna styrk, nokkrum dögum áður en bæjarráð gekk að tillögu Þorsteins um að bæta við lóð við enda nýrrar götu í bænum.

Sjá næstu 50 fréttir