Innlent

Vildu ekki Kaldalóns í kerskála Alcans

Afkomendur Sigvalda Kaldalóns bönnuðu að jólalag hans, Aðfangadagskvöld jóla, yrði flutt í kerskála Alcan í áramótaauglýsingu fyrirtækisins. Þeir segja hann hafa verið einlægan náttúruverndarsinna. Málið þykir sýna hve mikill hiti er hlaupinn í andstöðu við stóriðjustefnu og stækkun álversins.

Hátíðarauglýsing Alcan í tilefni jóla og áramóta vakti talsverða athygli eins og raunar flest það sem frá fyrirtækinu kemur þessar vikurnar. Fyrirtækið fékk Óperukór Hafnarfjarðar til að syngja í auglýsingunni. Fréttastofa hafði spurnir af því að afkomendur tónskálds hefðu ekki viljað bendla skáldið við stóriðju á Íslandi og meinað kórnum að syngja lag hans í auglýsingunni.

Þegar haft var samband við Björg Karitas Jónsdóttur formann Óperukórsins vildi hún ekki tjá sig um lagavalið en sagði að tónlist væri hafin yfir dægurþras. Stjórnandi kórsins, Elín Ósk Óskarsdóttir, vildi ekkert um málið segja.

Þegar nánar var grennslast kom hins vegar í ljós að valið stóð á milli tveggja laga, og annað þeirra eftir eitt af ástælustu tónskáldum þjóðarinnar, Sigvalda Kaldalóns. Þegar afkomendur hans fengu veður af því boðaði Ester Kaldalóns, barnabarn Sigvalda, boðaði til fundar í minningarsjóði skáldsins.

Hún sagði í samtali við fréttastofu að það væri bjargföst sannfæring sín að afi hennar hefði ekki tekið það í mál að lag hans yrði notað í auglýsingu fyrir álver á Íslandi. Hann hefði verið einlægur náttúruunnandi og sótt mikið af sínum innblæstri í íslenska náttúru.

Nafni hans og afabarn, Sigvaldi Snær Kaldalóns, staðfesti þetta og sagði að þeim ættingjunum hefði ekki hugnast sú tilhugsun að hið hátíðlega jólalag eftir Sigvalda við ljóðið Kirkjan ómar öll yrði flutt í kerskála Alcan í ljósi þess að hann hefði verið mikill umhverfisverndarsinni.

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Alcan, neitar því að þetta sé til marks um þann hita sem er hlaupinn í deiluna um stækkun álversins. "Ég held að það þurfi alls ekki að vera. Við áttum okkur alveg á því að við störfum í iðnaði sem er umdeildur og það er réttur hvers og eins að hafna þátttöku í svona og við virðum það."

Fyrirtækið hefur fengið furðulega mikil viðbrögð við hátíðarauglýsingunni, flest jákvæð - en einhver neikvæð, segir Hrannar. "Það eru alltaf einhverjir sem hafa út á hlutina að setja. Við höfum meðal annars verið gagnrýnd fyrir það að sýna fólk brosa í vinnunni, en ég held að við leyfum okkur það."

Í stað Kaldalóns var gamalt þjóðlag flutt í hinni umdeildu áramótaauglýsingu Alcan, við ljóðið Hátíð fer að höndum ein, sem er eftir fyrrum formann Félags byltingarsinnaðra rithöfunda, Jóhannes úr Kötlum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×