Innlent

Umsókn um aðild að ESB gæti skapað aga í efnahagsmálum

Framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins telur að það geti komið nauðsynlegum aga á efnahagsmál þjóðarinnar, að fara í umsóknarferli að Evrópusambandinu. Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, telur hagsveifluna hér á allt öðru róli en í nágrannalöndunum og þess vegna sé ekki hagstætt að hefja umsóknarferli nú.

Verðbólga er hærri á Íslandi en í flestum ríkjum Evrópu, vextir eru hvergi eins háir í vestrænum heimi og Íslendingar eiga heimsmet í viðskiptahalla. En hagvöxtur á Íslandi hefur líka verið meiri en hann er að meðaltali í Evrópu og víðar.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambandins, segir að það geti hjálpað til við að koma jafnvægi á efnahagsmálin, ef Íslendingar hefja umsóknarferli um aðild að Evrópusambandinu, að því gefnu að menn löguðu efnahagsstefnuna að skilyrðum Evrópusambandsins fyrir aðild. Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir hins vegar að þetta yrði óþægilegt fyrir Íslendinga.

„Vegna þess að hagsveiflan er ekki á sama róli hjá okkur og í nágrannalöndunum og hvað þá til jafnaðar yfir allt Evrópusambandið," segir Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Íslendingar geti hins vegar vel náð þessum aga og eigi að gera það. Framsóknarmenn og fleiri aðilar líti svo á að það sé mikilvægt stefnumið fyrir komandi ár, þegar miklu umbreytingatímabili sé að ljúka í íslensku viðskiptalífi og fjármálakerfi.

Ráðherra segir að miklu stórframkvæmdatímabili sé að ljúka og þá sé kominn réttur tími til að vinna að langvarandi stöðugleika og jafnvægi í íslenskum efnahags- og viðskiptamálum.

Íslendingar uppfylla ekki öll skilyrði fyrir aðilda að Evrópusambandinu. Þar munar mestu um viðskiptahallinn er allt of mikill og verðbólgan sömuleiðis allt of há. Skýringin á stöðugri hækkun vaxta undanfarin tvö ár er að verðbólgumarkmiðum Seðlabankans hefur ekki verið náð síðustu tvö árin. Jón segir margt benda til að hröð hjöðnun verðbólgu sé að hefjast.

„Og við nálgumst og náum verðbólgumarkmiði Seðlabankans á seinni hluta þessa árs," segir Jón Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×