Innlent

Milljón króna kennderí

Ætla má að kostnaður við leit að manni í Hafnarfirði, sem skilaði sér ekki heim eftir að hafa farið út að viðra hundana sína, sé ekki undir einni milljón króna. Maðurinn fannst ölvaður í heimahúsi eftir um fimm klukkustunda leit.

Maðurinn sem er rúmlega fertugur, fór akandi heiman frá sér í Hafnarfirði í gærkvöldi til að viðra hunda. Um hálf tólf leytið var hann í símasambandi, sagðist vera við Hvaleyrarvatn og á heimleið. Þegar hann skilaði sér ekki í nótt var hafin leit að honum undir morgun.

Um eitt hundrað björgunarsveitarmenn frá sjö björgunarsveitum tóku þátt í leitinni auk spor- og leitarhunda og áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar var byrjuð leit, þegar maðurinn fannst. Það voru björgunarsveitarmenn sem höfðu upp á bíl mannsins fyrir utan hús í Hafnarfirði og fannst hann þar inni í góðu yfirlæti. Ekkert amaði að manninum. Lögreglan segir hann ekki hafa gefið neina ástæðu fyrir hvarfi sínu, enda var hann þá orðinn við skál.

Björgunarsveitarfólk vinnur störf sín í sjálfboðavinnu, en miðað við temmilegt tímakaup hundrað manns auk útkallskostnaðar Landhelgisgæslunnar, þá hleypur kostnaðurinn af þessu kennderí mannsins einhvers staðar nálægt milljóninni eða rúmlega það. Þyrlan tók þátt í leit í tvær klukkustundir en kostnaður á klukkustund á henni hleypur á 170 til allt að 300 þúsund krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×