Fótbolti

Segir að FIFA hafi aldrei lagt til að halda HM á tveggja ára fresti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gianni Infantino segir að FIFA hafi aðeins skoðað hagkvæmni þess að halda HM á tveggja ára fresti.
Gianni Infantino segir að FIFA hafi aðeins skoðað hagkvæmni þess að halda HM á tveggja ára fresti. Markus Gilliar/Getty Images

Gianni Infantino, forseti alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, segir að sambandið hafi í raun aldrei lagt til að HM yrði haldið á tveggja ára fresti. Aðeins hafi verið kannað hvort hagkvæmt væri að gera slíka breytingu.

Hugmyndin um að halda Heimsmeistaramótið í fótbolta á tveggja ára fresti í stað fjögurra hefur mætt mikilli mótstöðu. Mörg knattspyrnusambönd, félög og leikmenn hafa sett sig upp á móti hugmyndinni, en hins vegar hefur afríska knattspyrnusambandið CAF sagst styðja hugmyndina.

„FIFA hefur ekki lagt til að HM verði haldið á tveggja ára fresti,“ sagði Infantino í Doha í gær, en hann er staddur í Katar þar sem dregið verður í riðlakeppni Heimsmeistaramótsins í kvöld.

„Við skulum fá þetta ferli á hreint. Á seinasta FIFA-þingi báðum við stjórn sambandsins um að skoða hagkvæmnina í því að halda HM á tveggja ára fresti.“

„Það er nákvæmlega það sem stjórnin gerði undir stjórn Arsene Wenger. FIFA lagði aldrei neitt til, en komst að þeirri niðurstöðu að það væri hagkvæmt og að það myndi hafa einhverskonar áhrif,“ sagði Infantino.

„Við komumst að því að þetta væri hagkvæmt og jafnvel jákvætt fyrir stóran hluta af heiminum. En að sjálfsögðu mættum við líka mikilli mótstöðu og það er þar sem samtalði þarf að byrja.“

Eins og Infantino kemur inn á í máli sínu þá hefur Arsene Wenger, fyrrum þjálfari Arsenal, leitt þessa vinnu. Frakkinn hefur verið sýnilegur seinustu mánuði og ár og talað fyrir því að HM ætti að vera haldið á tveggja ára fresti í stað fjögurra.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, ásamt því suður-ameríska, CONMEBOL, hafa lýst yfir mótstöðu sinni við hugmyndinni og þá hefur Ólympíunefndin lýst yfir áhyggjum sínum varðandi það að HM í fótbolta myndi taka áhorf og áhuga frá öðrum íþróttum.

„Við erum að skoða alla möguleika,“ bætti Infantino við. „Við munum taka okkur góðan tíma og reyna að sjá málið frá öllum mögulegum sjónarhornum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×