Innlent

Lög­regla eltist við af­brota­menn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Að minnsta kosti átta voru stöðvaðir við hraðakstur í gærkvöldi og nótt.
Að minnsta kosti átta voru stöðvaðir við hraðakstur í gærkvöldi og nótt. vísir/Vilhelm

Lögregla eltist við tvo einstaklinga í nótt í tveimur aðskildum atvikum. Einn sem grunaður er um sölu og dreifingu fíkniefna og peningaþvætti reyndi að hlaupa undan lögreglu en hafði ekki erindi sem erfiði. Var hann yfirbugaður og handtekinn en hann er einnig grunaður um fjölda brota gegn útlendingalögum, til að mynda að framvísa ekki lögmætum skilríkjum og ógna allsherjarreglu og almannahagsmunum.

Í hinu tilvikinu var um að ræða mann sem var að valda eignaspjöllum á bifreiðum. Þegar lögreglumenn bar að garði reyndi hann að kasta stóru grjóti í lögreglubifreiðina og hljóp síðan á brott. Hann var hins vegar eltur uppi og handtekinn grunaður um eignaspjöll, brot á lögreglusamþykkt og að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Var hann ekki í skýrsluhæfu ástandi þegar hann náðist, segir í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar.

Einn var handtekinn til viðbótar og vistaður í fangageymslu í þágu almannafriðar og allsherjarreglu, segir lögregla, en sá hafði áður fengið tækifæri til að bæta ráð sitt. Þá var einn handtekinn grunaður um fjölda innbrota.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni, flestir vegna hraðaksturs. Meðal þeirra var einn sem var handtekinn grunaður um að hafa ekið bifreið á 134 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst, undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökurétti. Þá reyndi hann að framvísa skilríkjum annars manns þegar lögregla stöðvaði hann.

Veistu meira um málin? Þú getur sent okkur fréttaskot hér eða sent okkur skilaboð á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×