Fótbolti

Fimm daga fangelsi fyrir að klæðast Borat skýlu á Meistaradeildarleik

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Borat sundskýla þykir ekki viðeigandi klæðnaður á fótboltaleikjum í Kasakstan.
Borat sundskýla þykir ekki viðeigandi klæðnaður á fótboltaleikjum í Kasakstan.

Þrír stuðningsmenn belgíska liðsins Club Brugge hafa verið dæmdir í fimm daga fangelsi í Kasakstan fyrir að klæðast Borat sundskýlu í stúkunni gegn Kairat Almaty.

Club Brugge sótti mikilvægan 4-1 sigur gegn Kairat í Meistaradeildinni á þriðjudag og þó ferðalagið frá Belgíu til Kasakstan sé mjög langt, um sex þúsund kílómetrar, voru eitthvað um fimm hundruð stuðningsmenn Club Brugge mættir.

Fimbulkuldi er í Kasakstan á þessum árstíma en stuðningsmennirnir létu það ekki stoppa sig og ákváðu að fara úr fötunum þegar Club Brugge skoraði þriðja mark leiksins. Þeir voru þó ekki alveg naktir því undir fötunum klæddust þeir svokallaðri Borat sundskýlu.

Sundskýlan nýtur frægðar úr kvikmyndinni Borat, þar sem Sacha Baron Cohen þykist vera blaðamaður frá Kasakstan. Kasakar hafa gagnrýnt myndina harðlega síðan hún kom út árið 2006 og þykir hún ekki lýsa þjóðina réttu ljósi.

Úr kvikmyndinni Borat.

Þessir þrír stuðningsmenn sáu ekki restina af leiknum því þeir voru strax dregnir úr stúkunni og handteknir af lögreglu. Þeir hafa nú verið dæmdir til fimm daga fangelsisvistar.

„Þeir gerðu þetta bara til gamans, en lögreglan leit á þetta sem móðgun. Þeir verða í fangelsi fram á sunnudag. Þetta er mjög alvarlegt, en þeir gerðu ekkert af sér annað en að klæðast Borat búningi“ sagði vinur þeirra við Nieuwsblad í Belgíu.

Þremenningarnir áttu að ferðast með vini sínum aftur til Belgíu á morgun, en nú eru ferðaplönin í uppnámi.

„Ég veit ekkert hvernig þeir komast heim. Við erum búnir að hafa samband við belgíska sendiráðið en þeir geta ekkert hjálpað okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×