Innlent

Annasamasti dagur á bráða­mót­töku í lækna minnum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Læknir á bráðamóttökunni segist ekki muna eftir öðrum eins degi.
Læknir á bráðamóttökunni segist ekki muna eftir öðrum eins degi. Vísir/Vilhelm

Hálfgert hættuástand skapaðist sunnan- og vestanlands fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur vegna flughálku í morgun. Rekja má fjölda umferðaróhappa og slysa til hennar. Á hádegi höfðu þrjátíu manns leitað á bráðamóttöku vegna hálkumeiðsla en í kvöld hafði sú tala hækkað í áttatíu.

Fréttamaður var staddur á bráðamóttökunni í kvöldfréttum Sýnar. Verið var að setja umbúðir á fólk í nánast hverju herbergi er hann leit inn. 

Aaron Palomares, sérnámslæknir bráðadeildar, segir stöðuna hafa verið krefjandi. 

„Það voru margir að bíða eftir okkur á vaktinni, þegar við byrjuðum í morgun. Það voru tólf sem biðu eftir okkur og það hefur verið stanslaust streymi inn á bráðamóttökuna síðan þá,“ segir Aaron.

Hann segir slysin hafa verið misalvarleg. 

„En þetta hefur tekið á fólkinu sem hefur komið til okkar. Alls konar skurðir. Það eru áverkar á úlnliðum og ökklum, höfuðhögg og fleira.“

Hvernig með fólk sem hefur unnið hér lengi? Man það eftir öðrum eins degi?

„Nei, ég ræddi einmitt við einn kollega minn sem hefur unnið hérna í þó nokkur ár og hann man ekki eftir svona degi.“

Aaron segir annasama daga eins og þennan hafa áhrif þvert á deildir Landspítalans og nefnir til dæmis skurðstofur og röntgendeildir.

Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður Vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að starfsfólk borgarinnar hafi saltað göturnar klukkan fjögur í nótt, en vegna rigningar hafi hálkuvarnirnar skolast burt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×