Innlent

Þrjá­tíu á slysa­deild vegna hálku og sjúkra­bílar á leiðinni með fleiri

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Sumir þeirra þrjátíu sem hafa leitað á bráðamóttökuna eru með alvarlega áverka svo sem beinbrot og ljóst að gera þurfi aðgerðir á nokkrum.
Sumir þeirra þrjátíu sem hafa leitað á bráðamóttökuna eru með alvarlega áverka svo sem beinbrot og ljóst að gera þurfi aðgerðir á nokkrum. samsett

Fleiri en þrjátíu hafa leitað á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi það sem af er degi vegna flughálku sem beið landsmanna á sunnan og vestanverðu landinu. Meiðslin hafa mörg hver verið alvarleg og mörg umferðaróhöpp og slys má rekja til hálku á vegum.

Landsmenn á sunnan- og vestanverðu landinu fundu flestir fyrir því hversu erfitt var að ganga um utandyra með reisn enda er flughált.

Hálkan hefur raunar valdið stríðum straumi fólks upp á bráðamóttöku en Aron Palomares sérnámslæknir segir að verið sé að færa fleira heilbrigðisstarfsfólk yfir á bráðadeild frá öðrum deildum því það sé alveg ljóst að annasamt verði í dag.

„Við fengum svo sannarlega að kynnast því í morgun og erum enn að finna svolítið fyrir því. Um leið og við komum klukkan átta í morgun voru 12 að bíða eftir okkur hérna á slysadeildinni. Þetta eru afleiðingar þessarar hálku. En núna á um tveimur og hálfum tíma þá hafa yfir þrjátíu einstaklingar leitað á slysadeild vegna áverka eftir þessa hálku,“ segir Aron sem bendir jafnframt á að sumir séu með alvarlega áverka.

„Það er mikið af brotum, öklabrotum, alvarlegum aflögunum á öklum, upphandleggjum og úlnliðum og þeir munu líklegast þurfa á aðgerð að halda. Þetta eru alvarleg slys sem við sjáum hérna. Ég veit að það eru nokkrir sjúkrabílar á leiðinni með einstaklinga sem hafa verið að lenda í þessu líka.“

Endaði á staur og slasaðist

Árni Friðleifsson aðstoðaryfirlögregluþjónn umferðardeildar höfuðborgarsvæðisins segir hálkuna hafa sett umferðina í hálfgert uppnám.

„Við urðum vör við þetta strax mjög snemma í morgun, þá fór að myndast þessi glæra hálka á höfuðborgarsvæðinu. Hún stendur faktíst ennþá. Við erum komin með einhver 6 umferðaróhöpp sem má rekja beint til þessarar hálku. Í einu tilviki þá endar ökutækið á staur og það brotnar rúða og slys verður á ökumanni þar, en svona minni háttar, en svo erum við með tvö mál þar sem aðilar eru á gangi og á leið í vinnu og slasast við það,“ sagði Árni.

Erfitt þegar rignir á hálkuvarnir

Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður Vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg, segir erfitt að eiga við aðstæður og að staðan sé þung.

„Við byrjuðum klukkan fjögur í nótt með aðgerðum í söltun á götum og stígum og svo fljótlega upp úr því fór að rigna mjög mikið. Það er voða erfitt að eiga við svona þegar það er klaki og kemur bleyta í, þá vilja hálkuvarnirnar skiljast frá. Það er erfitt að eiga við eiga þegar maður er með klaka og þegar kemur rigning í hann.“

Útlit er fyrir heiðríkju á höfuðborgarsvæðinu í hádeginu.

„Þá er hætta á að það verði dálítil hitaútgeislun jafnvel þótt hitinn verði í tveimur til þremur gráðum. Ég er ekkert viss um að það þiðni eða klakinn minnki þar sem ekki hefur verið saltað,“ segir Eiður. Það sé því vissara að fara að öllu með gát.


Tengdar fréttir

Miklar tafir vegna áreksturs í Vestur­bæ

Miklar umferðartafir eru í Vesturbæ Reykjavíkur vegna áreksturs á hringtorginu við gatnamót Suðurgötu og Hringbrautar. Lögreglumenn stýra umferð á vettvangi en töluverð hálka er á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×