Fótbolti

Inter tók topp­sætið aftur af ná­grönnum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lautaro Martinez fagnar marki sínu fyrir Internazionale en hann er markahæstur í Seríu A í vetur með tíu mörk.
Lautaro Martinez fagnar marki sínu fyrir Internazionale en hann er markahæstur í Seríu A í vetur með tíu mörk. Getty/Marco Luzzani

Internazionale er komið í efsta sæti Seríu A á Ítalíu á ný eftir 3-1 heimasigur á Bologna í kvöld.

Nágrannar þeirra í AC Milan tóku af þeim toppsætið á föstudaginn en Inter náði aftur eins stigs forskoti með þessum sigri í kvöld.

Þetta var fimmti deildarsigur Internazionale í röð sem er lengsta sigurganga liðsins á þessari leiktíð.

Lautaro Martinez lagði upp mark fyrir Piotr Zielinski á 39. mínútu og skoraði annað markið sjálfur á 48. mínútu með skalla eftir sendingu frá Hakan Calhanoglu.

Martinez er þar með kominn með tíu mörk og fjórar stoðsendingar á tímabilinu en hann er markahæsti leikmaður Seríu A. 

Marcus Thuram skoraði þriðja mark Inter á 74. mínútu og innsiglaði sigurinn endanlega. Hann skallaði þá af stuttu færi eftir horn.

Santiago Castro minnkaði muninn í 3-1 sjö mínútum fyrir leikslok en nær komust gestirnir ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×